„Það eru margfalt fleiri börn beitt kynferðisofbeldi á Íslandi en flestir átta sig á og það eru miklu fleiri fullorðnir tilbúnir að eiga í kynferðislegum samskiptum við börn heldur en við líka áttum okkur á,“ segir Kolbrún sem fór yfir málið í Bítinu á morgun.
Nýjustu niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sýni til dæmis að um 250 börn í 8 til 10. bekk svöruðu því játandi að einhver fullorðinn eða að minnsta kosti fimm árum eldri hefði haft samfarir eða munnmök við þau, gegn þeirra vilja.
„Það er mjög há tala,“ segir Kolbrún. Innan við helmingur segi frá og 22 skólar hafi ekki tekið þátt. Það sé því alveg ljóst að heildartalan liggi ekki fyrir.
Kolbrún segir nauðsynlegt að fræða börnin til að sannfæra þau um að ef þau segi frá muni þau fá hjálp. Börnin séu oft í siðferðisklemmu því þeir sem brjóti gegn þeim séu oftast tengdir þeim, fjölskyldumeðlimir eða fjölskylduvinir. Brot gegn börnum eigi sér oftast stað á heimili barns, heimili geranda eða sameiginlegu heimili.
Sjá einnig: Sakleysi dætranna hafi gufað upp
„Svo lengi sem það er ekki í gegnum netið,“ segir Kolbrún.
Hún segir einnig mikilvægt að fræða foreldra. Ofbeldismenn hafi óhefð aðgengi að börnum í gegnum netið. Hún segir fullorðna hafa sofið á verðinum, bæði varðandi eftirlit við netnotkun barnanna og hvað varðar merkin sem börnin gefi frá sér.
„Bæði með líðan og hegðun, og með því að tala í kringum hlutina. En við erum ekki endilega að hlusta eftir því. Það er oft erfitt fyrir barn að segja frá, sérstaklega ef þetta er einhver sem barninu þykir vænt um.“
Þá segir Kolbrún mikilvægt að fræða allt samfélagið því þetta sé verkefni sem við þurfum öll að taka að okkur saman.
Vilja ná til barna áður en þau brjóta á öðrum börnum
Hjá Barnaheillum er hægt að sækja námskeið sem fjallar um ungmenni sem hafa kynferðislegar hugsanir til barna. Kolbrún segir þessar hugsanir og langanir oft koma fram á unglingsaldri og geti valdið skömm og sjálfshatri.
„Við viljum ná þessum krökkum og láta þau vita að það er hjálp í boði,“ segir Kolbrún. Það séu til lausnir fyrir bæði fullorðna og börn. Fyrir fullorðna sé það Taktu skrefið og fyrir börn SÓK-teymið.
„Við viljum stoppa fólk af áður en það lætur til skarar skríða.“
Kolbrún fjallaði aðeins um tálbeitumálið og hópana sem hefur verið fjallað um. Þó svo að mennirnir sem hafi verið beittir þessum tálbeituaðferðum hafi ekki haft frumkvæði að samskiptum við „börn“ þá séu þeir samt sem áður tilbúnir til að grípa tækifærið þegar það gefst.
„Það er mjög hættulegt. Af hverju erum við mörg hundruð manns á Íslandi sem eru tilbúnir til að klæmast við börn og hitta börn í kynferðislegum tilgangi? Ef þú ert þarna, farðu og fáðu hjálp.“
Kolbrún segir afleiðingar kynferðisofbeldis langvarandi og alvarlegar en það sé mikilvægt að fólk segi frá og fái stuðning. Þá sé líklegra að fólki vegni vel.
Hún segir áríðandi að það sé talað um þetta og fólk sæki sér fræðslu. Hún segir hægt að sækja sér hana víða. 112.is, hjá Barna- og fjölskyldustofu, Sjúk ást, hjá Barnaheillum sé fræðsluefni og námskeið.