Erlent

Trump segir Banda­ríkja­menn munu taka yfir og „eignast“ Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það fór vel á með Trump og Netanyahu í gær.
Það fór vel á með Trump og Netanyahu í gær. epa/Shawn Thew

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur vakið gríðarlega athygli og verið harðlega gagnrýndur eftir að hann lýsti því yfir í gær að Bandaríkjamenn hygðust taka yfir Gasa.

Ummælin lét forsetinn falla á blaðamannafundi með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sem staddur er í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum. Hann hefur áður viðrað hugmyndir um að breyta Gasa í ferðamannaparadís.

Trump sagði Palestínumenn aðeins vilja snúa aftur á Gasa af því að þeir hefðu ekki um annað að velja. Svæðið væri rústir einar og Palestínumenn ættu að leita til nágrannaríkjanna til að lifa í friði.

Bandaríkjamenn myndu taka yfir Gasa, eiga svæðið og axla ábyrgð á því að hreinsa það. Þá myndu þeir byggja það upp, skapa þúsundir starfa og gera svæðið að stað sem Mið-Austurlönd gætu verið stolt af.

Fyrr um daginn hafði Trump rætt um að Palestínumenn flyttust varanlega frá Gasa og hvatti Egyptaland, Jórdaníu og önnur Arabaríki til að taka á móti þeim. Ráðamenn þar í landi hafa hafnað slíkum hugmyndum.

Forsetinn fór ekki út í smáatriði, hvernig stjórnvöld hygðust framkvæma allt það sem hann boðaði en aðspurður sagðist hann ekki útiloka að senda hermenn á Gasa ef þess þyrfti.

Hann sagðist hins vegar hafa rætt við leiðtoga á svæðinu og að þeir „elskuðu“ hugmyndina um að Bandaríkin eignuðust Gasa og sköpuðu stöðugleika. Sagðist hann vonast til að yfirvöld í Egyptalandi og Jórdaníu myndu samþykkja, í fyllingu tímans, að taka á móti íbúum.

Netanyahu lýsti fyrir sitt leyti ánægju með hugmyndina og sagði Trump besta vin sem Ísrael hefði átt í Hvíta húsinu. Hamas-samtökin, stjórnvöld í Sádi Arabaíu, mannréttindasamtök og samtök múslima í Bandaríkjunum hafa hins vegar fordæmt yfirlýsingar forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×