Innlent

Um­sóknum um vernd fækkaði úr 4.168 í 1.944

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flóttamenn frá Venesúela mótmæla við Útlendingastofnun.
Flóttamenn frá Venesúela mótmæla við Útlendingastofnun. Vísir/Vilhelm

Umsóknum um alþjóðlega vernd fækkaði verulega milli áranna 2023 og 2024, úr 4.168 í 1.944. Þar munar mest um færri umsóknir frá Venesúela en þeim fækkaði úr 1.592 í 193.

Flestar umsóknirnar komu frá Úkraínumönnum, alls 1.235 en umsækjendur frá Palestínu voru 115, umsækjendur frá Nígeríu 52 og umsækjendur frá Afganistan 43.

Ef horft er á allan hópinn voru umsækjendur frá 60 ríkjum.

Fullorðnir umsækjendur voru 1.565 og börn 379. Þá sótti 991 karl um og 953 konur.

Hundrað höfðu áður sótt um vernd.

Útlendingastofnun afgreiddi samtals 3.416 umsóknir í fyrra og var 309 veitt vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi í efnislegri meðferð. Þá var 1.133 veitt mannúðarleyfi á grundvelli sameiginlegrar verndar vegna fjöldaflótta frá Úkraínu.

Af þeim 1.251 sem var synjað voru flestir frá Venesúela, Sómalíu, Kólumbíu og Nígeríu.

„404 umsóknir fengu ekki efnislega meðferð, ýmist vegna þess að annað ríki Dyflinnarsamstarfsins bar ábyrgð á umsókn viðkomandi, umsækjandinn hafði þegar fengið vernd í öðru ríki eða hafði dvalarleyfi í öruggu þriðja ríki. Stærstur hluti þeirra voru ríkisborgarar Venesúela (133), Nígeríu (54), Palestínu (53) og Úkraínu (47),“ segir á vef Útlendingastofnunar.

Alls voru 1.227 aðstoðaðir við sjálfviljuga heimför, langflestir frá Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×