Lífið

Víðir hrasaði á þingi: Frjálsíþróttirnar björguðu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Víðir var hætt kominn en bjargaði sér frá frekara klandri.
Víðir var hætt kominn en bjargaði sér frá frekara klandri.

„Ég segi að gamlir takar síðan ég æfði frjálsar, þar sem ég var sérlega góður í langstökki án atrennu hafi komið sér vel þarna,“ segir Víðir Reynisson þingmaður Samfylkingarinnar sem féll við þegar hann rak sig í kantinn á ræðupúlti Alþingis við útbýttun þingsæta í gær.

„Mér brá mjög mikið. Ég átti náttúrulega alls ekkert von á því að vera dreginn fyrstur út, því ég er náttúrulega svo aftarlega í stafrófsröðinni en þarna var dregið eftir töluröð. Þannig að þetta kom brátt upp og ég rek síðan tærnar svona skemmtilega í á kantinum á ræðupúltinu,“ segir Víðir í samtali við Vísi. Hann segir að hann hafi í raun farið vitlausa leið að púltinu, hann hefði átt að labba fram fyrir það fyrst.

„Þannig ég læt mér þetta bara að kenningu verða,“ segir Víðir hlæjandi. Hann segist ítrekað hafa fengið að heyra þau fleygu orð að fall sé fararheill í kjölfarið. Hann hafi tekið skjáskot af myndbandi Alþingisvefsins og sent vinum og vandamönnum.

Það er alveg klassískt að svona gerist fyrsta daginn á nýjum vinnustað?

„Það er algjörlega rétt hjá þér, þetta er algjörlega klassískt. En fall er fararheill sagði einhver við mig þegar ég staulaðist til baka og þetta er nú bara fyndið, maður verður líka að hafa húmor fyrir sjálfum sér.“

Víðir segist hlakka til komandi verkefna á nýju þingi. „Ég er farinn á fulla ferð og byrjaður að kafa í öll þessu mál. Ég hlakka gríðarlega til að sinna þeim verkefnum sem ég var kjörinn til að sinna.“

Víðir í sætinu sem hann dró við illan leik.Vísir/Vilhelm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.