Innlent

Gengur vel á ó­vænta fundinum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Ástráður Haraldsson boðaði Magnús Þór Jónsson óvænt á fund í dag.
Ástráður Haraldsson boðaði Magnús Þór Jónsson óvænt á fund í dag. Vísir/Vilhelm

Ríkissáttasemjari boðaði formann Kennarasambands Íslands óvænt á fund fyrr í dag. Hann segir samtölin hafa „skriðið ágætlega áfram í dag.“

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari boðaði Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambands Íslands, óvænt á fund fyrr í dag. Ekki hefur verið fundað í deilunni síðan á sunnudagskvöld.

„Það gengur vel. Við erum í ágætum samtölum og færumst fram á við en hversu langan tíma tekur og hvort að tekst á endanum veit ég ekki,“ segir Ástráður Haraldsson.

„Það sem er í gangi hérna í dag er að það eru vinnufundir sem að þroskuðust þannig að það komst meiri skriður á málin og þess vegna var bætt við meiri mannskap og meira vinnumagni í málið. Þetta hefur skriðið ágætlega áfram í dag og er enn þá í gangi.“

Enn er fundað í Karphúsinu og segist Ástráður ekki vita hversu lengi verði fundað í dag. 

„Ég er að reyna átta mig á því hvað er gagnlegt að funda lengi og svo er ég að reyna átta mig á þessu veðri,“ segir hann. „En við erum enn þá að og höldum áfram eins lengi og við getum og eins lengi og er gagnlegt.“ 

Verkföll hófust í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum á mánudag. Öll verkföll í leikskólum eru ótímabundin en tímabundin í grunnskólum. Í dag kom í ljós að verkföll hefjist í fimm framhaldsskólum og einum tónlistarskóla 21. febrúar hafi samningar ekki náðst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×