Skoðun

Ás­laug Arna – kraftur nýrra tíma

Friðrik Jósefsson skrifar

Það voru góð tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tilkynnti um framboð sitt á glæsilegum og fjölmennum fundi í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er framsækinn og kraftmikill leiðtogi sem hefur þegar sýnt að hún býr yfir þeim eiginleikum sem þarf til að stýra Sjálfstæðisflokknum inn í nýja tíma. Hún hefur starfað ötullega að framgangi flokksins, bæði sem þingmaður og ráðherra, og stendur ótrauð við grunngildi Sjálfstæðisflokksins: frelsi, ábyrgð og tækifæri fyrir alla. Með skýrri sýn á nútímalega stjórnsýslu og menntun hefur hún lagt áherslu á að efla nýsköpun og styrkja stoðir atvinnulífsins.

Skilur stöðu smærri atvinnurekenda

Áslaug Arna skilur stöðu og áskoranir okkar sem stundum atvinnurekstur því hún hefur lagt sig fram við að kynna sér málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja um land allt. Fáir stjórnmálamenn hafa ferðast jafn mikið um landið og kynnt sér stöðu mála í ólíkum landshlutum frá fyrstu hendi. Hún er eini ráðherrann sem hefur bókstaflega fært skrifstofu sína reglulega milli staða og verið þannig í góðu sambandi við fólk og fyrirtæki í öllum landshlutum.

Vill sameina flokkinn og efla um allt land

Hennar einlægi vilji til að hlusta og sameina ólíkar raddir innan Sjálfstæðisflokksins sýnir að hún mun leitast við að endurnýja traust innan flokksins um allt land. Hún er röggsamur, skapandi og trúverðugur leiðtogi sem vill efla Sjálfstæðisflokkinn til framtíðar. Áslaug Arna er því skýrt val fyrir sjálfstæðisfólk sem vill styrkja stöðu flokksins og byggja upp betra samfélag fyrir alla. Hún verður formaður allra sjálfstæðismanna, um land allt.

Ég hvet landsfundarfulltrúa til þess að kjósa Áslaugu Örnu sem formann Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi.

Höfundur er húsasmíðameistari




Skoðun

Sjá meira


×