Rautt á Slot í hádramatísku jafntefli 12. febrúar 2025 21:34 James Tarkowski fagnar jöfnunarmarki sínu en Liverpool mennirnir Trent Alexander-Arnold og Mohamed Salah eru súrir og svekktir. Getty/Carl Recine Liverpool var hársbreidd frá því að ná níu stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld en nágrannar þeirra í Everton skoruðu jöfnunarmarkið í leiknum þegar átta mínútur voru komnar fram í uppbótartíma. Liðin gerðu því 2-2 jafntefli í síðasta borgarslagnum á Goodison Park. Þetta var eins dramatískur leikur og þeir gerast þegar þessi tveir hatrömu nágrannar mætast. Everton fagnaði mikilvægu stigi og fyrir vikið er Liverpool bara sjö stigum á undan Arsenal. Það er því enn spenna í titilbaráttunni enda hefur Liverpool verið að gefa mikið eftir að undanförnu. Miðvörðurinn James Tarkowski jafnaði metin fyrir Everton með þrumuskoti þegar allt leit út fyrir að Liverpool væri að vinna leikinn. Myndbandsdómarar voru lengi að skoða markið en það stóð og Everton fagnaði unnu stigi. Svekkelsið var mikið hjá leikmönnum Liverpool sem horfðu þarna á eftir tveimur stigum í baráttunni um titilinn. Þeir misstu líka stjórn á skapinu í leikslok en bæði Curtis Jones og Arne Slot fengu þá rautt spjald. Liverpool var 2-1 yfir langt fram yfir uppgefnan uppbótartíma eftir að Mohamed Salah hafði skorað enn eitt markið. Hann var bæði með mark og stoðsendingu í leiknum. Salah hefur nú skorað 22 mörk og gefið 14 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Þetta var frestaður leikur síðan í desember en um leið síðasti borgarslagurinn á Goodison Park því Everton kveður þennan leikvang eftir tímabilið. Liverpool liðið var allt annað en sannfærandi í þessum mikla baráttuleik og var ekki búið að gera mikið í seinni hálfleiknum þegar Mohamed Salah tók til sinna ráða. Mohamed Salah hafði lagt upp fyrra markið í fyrri hálfleik þegar Alexis Mac Allister jafnaði metin með skalla eftir fyrirgjöf Salah. Everton hafði fengið draumabyrjun þegar Beto skoraði eftir stungusendingu frá Jarrad Branthwaite á 11. mínútu. Everton liðið var betra liðið í seinni hálfleik þar til að Liverpool náði góðri sókn. Curtis Jones átti skot í varnarmann en boltinn datt fyrir fætur Salah sem skoraði. Undir lokin fór miðvörðurinn James Tarkowski fram og skoraði glæsilegt mark. Everton hafði vissulega heppnina með sér hvernig boltinn datt fyrir þá en þeir höfðu lagt mikið í þennan leik og áttu stig skilið. Það voru síðan mikil læti í lokin og Curtis Jones, leikmaður Liverpool og knattspyrnustjórinn Arne Slot fengu báðir rautt spjald. Slot fékk rautt eftir að hann sagði eitthvað við Michael Oliver dómara. Abdoulaye Doucouré fékk líka rautt spjald fyrir að slást við Jones. Enski boltinn
Liverpool var hársbreidd frá því að ná níu stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld en nágrannar þeirra í Everton skoruðu jöfnunarmarkið í leiknum þegar átta mínútur voru komnar fram í uppbótartíma. Liðin gerðu því 2-2 jafntefli í síðasta borgarslagnum á Goodison Park. Þetta var eins dramatískur leikur og þeir gerast þegar þessi tveir hatrömu nágrannar mætast. Everton fagnaði mikilvægu stigi og fyrir vikið er Liverpool bara sjö stigum á undan Arsenal. Það er því enn spenna í titilbaráttunni enda hefur Liverpool verið að gefa mikið eftir að undanförnu. Miðvörðurinn James Tarkowski jafnaði metin fyrir Everton með þrumuskoti þegar allt leit út fyrir að Liverpool væri að vinna leikinn. Myndbandsdómarar voru lengi að skoða markið en það stóð og Everton fagnaði unnu stigi. Svekkelsið var mikið hjá leikmönnum Liverpool sem horfðu þarna á eftir tveimur stigum í baráttunni um titilinn. Þeir misstu líka stjórn á skapinu í leikslok en bæði Curtis Jones og Arne Slot fengu þá rautt spjald. Liverpool var 2-1 yfir langt fram yfir uppgefnan uppbótartíma eftir að Mohamed Salah hafði skorað enn eitt markið. Hann var bæði með mark og stoðsendingu í leiknum. Salah hefur nú skorað 22 mörk og gefið 14 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Þetta var frestaður leikur síðan í desember en um leið síðasti borgarslagurinn á Goodison Park því Everton kveður þennan leikvang eftir tímabilið. Liverpool liðið var allt annað en sannfærandi í þessum mikla baráttuleik og var ekki búið að gera mikið í seinni hálfleiknum þegar Mohamed Salah tók til sinna ráða. Mohamed Salah hafði lagt upp fyrra markið í fyrri hálfleik þegar Alexis Mac Allister jafnaði metin með skalla eftir fyrirgjöf Salah. Everton hafði fengið draumabyrjun þegar Beto skoraði eftir stungusendingu frá Jarrad Branthwaite á 11. mínútu. Everton liðið var betra liðið í seinni hálfleik þar til að Liverpool náði góðri sókn. Curtis Jones átti skot í varnarmann en boltinn datt fyrir fætur Salah sem skoraði. Undir lokin fór miðvörðurinn James Tarkowski fram og skoraði glæsilegt mark. Everton hafði vissulega heppnina með sér hvernig boltinn datt fyrir þá en þeir höfðu lagt mikið í þennan leik og áttu stig skilið. Það voru síðan mikil læti í lokin og Curtis Jones, leikmaður Liverpool og knattspyrnustjórinn Arne Slot fengu báðir rautt spjald. Slot fékk rautt eftir að hann sagði eitthvað við Michael Oliver dómara. Abdoulaye Doucouré fékk líka rautt spjald fyrir að slást við Jones.