Enski boltinn

Fá­menn framlína Arsenal

Valur Páll Eiríksson skrifar
Svo virðist sem Havertz verði frá um hríð. Því fjölgar á lista yfir meidda framlínumenn Arsenal.
Svo virðist sem Havertz verði frá um hríð. Því fjölgar á lista yfir meidda framlínumenn Arsenal. Alex Pantling/Getty Images

Þjóðverjinn Kai Havertz varð fyrir óhappi í æfingaferð Arsenal í Dubai í vikunni og verður að líkindum frá um hríð. Fáir kostir eru í boði framarlega á vellinum fyrir knattspyrnustjórann Mikel Arteta í ljósi meiðslanna.

Havertz meiddist aftan í læri í æfingaferðinni samkvæmt breskum miðlum og bætist við lista framliggjandi leikmanna liðsins sem glíma við meiðsli. Fyrir eru Gabriel Jesus, Bukayo Saka og Gabriel Martinelli meiddir.

Jesus sleit krossband og spilar ekki meira á þessari leiktíð, lærmeiðsli Saka munu að líkindum halda honum frá vellinum fram í apríl en staða Martinelli er óljósari. Ekki er víst hversu alvarleg meiðsli Havertz eru, en að líkindum verður hann frá um hríð.

Arsenal var orðað við þónokkra framherja í félagsskiptaglugganum í janúar og gæti liðinu refsast fyrir að stökkva ekki til.

Leandro Trossard, Ethan Nwaneri og Raheem Sterling eru einu þrír framlínumenn Skyttanna sem eru heilir heilsu.

Þónokkur lið í ensku úrvalsdeildinni eru með fleiri leikmenn á meiðslalistanum en vandamál Arsenal einskorðast við sömu stöðurnar. Hægri bakverðirnir Ben White og Takehiro Tomiyasu eru einnig á sex manna löngum meiðslalista Skyttanna.

Mestu meiðslavandræðin eru á liði Tottenham Hotspur, grannliði Arsenal í Norður-Lundúnum, þar sem ellefu leikmenn eru frá. Níu eru meiddir hjá Bournemouth, átta hjá Brighton og Everton, og sjö hjá Chelsea og Wolves.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×