„Ég var eiginlega meira stressaður að horfa á leikinn í sjónvarpinu heldur en frá hliðarlínunni alla jöfnu,“ segir Arnar. „Maður elskar þessa stráka og félagið það mikið að þetta var bara erfitt. Erfitt að fylgja þessu eftir. Bara geggjaður sigur.“
Sigurinn sé með glæstustu sigrum íslensks félagsliðs í Evrópu. Víkingar nú einum leik, jafntefli eða sigri, frá 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.
„Það hafa verið nokkrir stórir sigrar. Þessi er allavegana uppi með þeim. Þetta var bara svo vel upp settur leikur hjá þjálfarateyminu. Maður man ekki eftir því að liðið hafi lent í teljandi vandræðum allan leikinn. Þá líka bara miðað við hvernig undirbúningi beggja liða var háttað fyrir leikinn. Bara hrós á Víkingana. Þetta er flott fyrir íslenska boltann. Klárlega einn af stóru Evrópusigrunum í sögu Íslands.“
Víkingar á hálfgerðu undirbúningstímabili með lykilmenn frá vegna meiðsla en Panathinaikos, þó einnig með menn frá, en á miðju tímabili heima fyrir.
„Þetta var alltaf að fara verða mikil áskorun. Ég fékk magasár yfir þessu í byrjun janúar, hvernig þessu yrði háttað. Það er bara svo mikil jákvæðni í gangi þarna í Víkinni, Sölvi kemur inn ferskur og með nýjan blæ. Nær að virkja strákana vel og nýir aðstoðarmenn kynntir til leiks. Þetta gengur eins og vel smurð vél.
En nú sé ekki tímapunktur til að fara fram úr sér. Aðeins sé hálfleikur í einvíginu og framu erfitt verkefni í Grikklandi.
„Ef ég má tala til strákana þá verða þeir að halda fókus. Þetta gefur byr undir báða vængi en Grikkirnir eru særð ljón og verða dýrvitlausir á sínum eigin heimavelli. Stuðningsmenn þeirra líka. En ég held að Víkingarnir hafi fengið það sem þeir vildu út úr þessum leik. Að vera í góðum séns, virkilega góðum séns þegar að seinni leikurinn hefst því það verður líka brekka fyrir Grikkina að vera undir þessari pressu frá sínum eigin stuðningsmönnum. Þeir verða pirraðir ef þeir ná ekki að skora á fyrsta stundarfjórðungnum. Víkingarnir verða að láta þennan meðbyr njóta sín í leiknum úti.“
Eins marks forysta sem hefði verið tveggja marka ef óskiljanleg ákvörðun dómara leiksins, að dæma vítaspyrnu undir lok leiks, hefði ekki skotið upp kollinum og gefið Grikkjunum sterkari líflínu.
„Ég er nú búinn að dásama VAR í Evrópukeppninni hjá Víkingum hingað til. Mér fannst þetta skrítið víti í gær. Núna er ég ekki að væla, því ég er ekki þjálfari Víkings lengur heldur segi þetta sem stuðningsmaður. Mér fannst þetta skrítið. Í fyrsta lagi var dæmt á hendi en svo finnur dómarinn einhverja afsökun og segist hafa séð brot en ef hann hefði sleppt því að flauta þá hefði þetta aldrei sést. Í einhverri hægri endursýningu í tíunda skipti má mögulega dæma eitthvað en fyrir mér var þetta aldrei víti.“
Arnar líklegast síðasti maðurinn sem rekur upp stór augu í kjölfar þessarar góðu frammistöðu Víkinga.
„Þetta er eins og að ala upp barn, svo sendirðu barnið út í lífið og það heldur áfram að gera góða hluti. Maður var eins og stolt foreldri að horfa á þeirra framgöngu en ég vissi allan tímann að liðið væri í topphöndum. Það er búið að vinna geggjað starf, góð stjórn þarna á bak við og Kári með svipuna á lofti. Sölvi er orðinn góður þjálfari og verður toppþjálfari. Hann hefur allt til brunns að bera til að verða toppþjálfari og sýndi kænsku sína gær því að liðið var ekkert að spila eftir svipuðum áherslum og ég var með. Það var töluvert um nýjunga. Hann var að færa menn til og gerði liðið að sínu strax í fyrsta leik.“