Upp­gjörið: Hamar/Þór - Valur 83-89 | Valskonur tryggðu sér sæti í efri hlutanum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Valur vann sterkan sigur í kvöld og tryggði sér sæti í efri hluta deildarinnar.
Valur vann sterkan sigur í kvöld og tryggði sér sæti í efri hluta deildarinnar.

Valur sótti sex stiga sigur, 83-89, í heimsókn sinni til Hamars/Þórs í Þorlákshöfn í átjándu umferð Bónus deildar kvenna. Sigurinn skaut Valskonum upp í efri hlutann en Hamar/Þór situr í níunda sæti deildarinnar sem skiptist nú til helminga.

Dómaramistök slógu Valskonur út af laginu

Valskonur byrjuðu leikinn sterkt og stálu boltanum tvisvar, en voru síðan slegnar út af laginu af mistökum dómara.

Sigmundur Már blés óvart of snemma í flautuna og stal þannig tveimur stigum af Val, skiljanleg mistök og allt í góðu með það, en Valskonur voru lengi að jafna sig á þessu óréttlæti. Hamar/Þór nýtti tækifærið og átti ellefu stiga áhlaup í beinu kjölfari.

Kaflaskiptur leikur

Eftir að hafa hrist það af sér komu Valskonur sér aftur inn í leikinn og jöfnuðu 22-22 áður en fyrsta leikhluta lauk.

Annar leikhlutinn var álíka kaflaskiptur, Hamar/Þór byrjaði á frábæru áhlaupi og tók sjö stiga forystu áður en Valur kom stigi á töfluna.

Það snerist síðan við og Valur átti frábært áhlaup undir lok leikhlutans, meðan varnarleikur var hvergi sjáanlegur hjá heimaliðinu, og staðan orðin 41-47 fyrir Val þegar flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur hófst með miklu jafnræði inni á vellinum en síðan héldu sveiflurnar áfram. Heimakonur hertu vörnina undir lok þriðja leikhluta, sóttu sjálfar á körfuna af miklum krafti og komust 68-66 yfir.

Lítið skildi að undir lokin

Fjórði leikhluti, og leikurinn raunar allur, var æsispennandi frá upphafi til enda. Lítið sem ekkert skildi liðin að og ljóst var að leikurinn myndi ráðast á einstaklings framtaki og/eða mistökum, sem varð raunin.

Atvikið sem réði úrslitum

Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir lenti Hamar/Þór undir og tók leikhlé. Þær köstuðu boltanum síðan frá sér í næstu sókn og svo gott sem glutruðu leiknum því Valskonur tóku þá fjögurra stiga forystu.

Heimakonur reyndu í óðagoti að minnka muninn en gerðu bara illt verra og þurftu á endanum að sætta sig við sex stiga tap.

Valur kláraði leikinn af yfirvegun og var vel að 83-89 sigrinum komið.

Stjörnur og skúrkar

Fór lang mest fyrir Alyssu Marie í sóknarleik Vals. Spilaði mest, tók flest skot og skoraði flest stig (23), með fullkomna vítanýtingu (6/6) og greip að auki níu fráköst.

Abby Claire Beeman var atkvæðamest hjá Hamar/Þór. Skoraði 25 stig, greip sjö fráköst og gaf átta stoðsendingar. Leiddi flest áhlaup liðsins.

Dómarar

Sigmundur Már Herbertsson, Eggert Þór Aðalsteinsson og Jón Svan Sverrisson mynduðu þríeyki kvöldsins.

Vel dæmt hjá þeim, fyrir utan ein lítil mistök Sigmundar sem var sagt frá hér fyrir ofan.

Leyfðu leiknum að flæða og leyfðu töluverða hörku, sem er alltaf ánægjulegt. Hallaði í hvoruga áttina og þríeykið getur verið ánægt með sína frammistöðu.

Viðtöl

„Við frusum í restina“

Hákon Hjartarson, þjálfari Hamars/Þórs, var ósáttur með frammistöðu síns liðs í fyrri hálfleik og við endalok leiksins. Hann horfir þó bjartsýnn fram veginn og stefnir á að komast í úrslitakeppnina.

„Við vorum bara soft í fyrri hálfleik fannst mér. Þær voru að taka of mikið af sóknarfráköstum í fyrri hálfleik og ef þú gefur Val alltaf extra sóknir munu þær skora á endanum. Við frusum líka í restina, það situr í mér, við frusum í restina í svæðinu.

Vorum búin að tala um það, fá boltann inn og hreyfa hann út, kötta í eyðurnar og við vissum að þær færu í svæðisvörn. En svo bara frusum við, stóðum bara fyrir utan og biðum eftir að einhver gerði eitthvað“ sagði Hákon fljótlega eftir leik.

Hann tók undir það að Hamar/Þór hafi kastað leiknum frá sér þegar þær töpuðu boltanum í sókninni eftir leikhlé þegar tæpar tvær mínútur voru eftir.

„Já, við gerðum það bara. Það var bara illa execute-að og leikurinn fór eiginlega þar,“ sagði Hákon en benti einnig á annað atvik sem gerði útslagið.

„Svo slær leikmaður okkar líka boltann í fótinn á Valsara og útaf, en þeim er dæmt innkastið og við fáum þrist í andlitið,“ sagði Hákon en tók skýrt fram að tapið skrifaðist ekki á dómarana heldur liðið sem tapaði leiknum.

„Þeir dæmdu þennan leik mjög vel, leyfðu mikla hörku og voru bara flottir. Við eigum bara að gera betur.“

Hamar/Þór berst fyrir lífi sínu í fallbaráttunni, nú þegar venjulegri deildarkeppni er lokið og skipting tekur við. Átta leikir eru eftir óspilaðir gegn liðum í neðri hluta deildarinnar.

„Bara barátta. Við þurfum að koma okkur upp um eitt sæti. Við eigum enn þá möguleika á að ná innbyrðis á öll liðin og… Við þurfum bara að koma okkur í baráttuna um átta liða úrslit, við viljum vera þar í baráttunni. Nýr dagur, ný tækifæri“ sagði Hákon að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira