Skoðun

Stjórn Sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga er sama um menntun barna en hvað með for­eldra?

Helga C Reynisdóttir skrifar

Ríkissáttasemjari lagði fram innanhússtillögu á fimmtudaginn til að reyna að binda enda á þann stórskaða sem samningsleysi og vanvirðing gagnvart kennurum og menntakerfinu hefur haft á kennarastéttina alla. Stjórn og samninganefnd sambands íslenskra sveitarfélaga hafnaði þeirri tillögu í hádeginu í gær með þeim afleiðingum að fjöldi kennara gekk út enda hafa þeir fengið nóg. Langt er síðan að kennurum var ofboðið og svarið frá stjórn sambandsins var mögulega og mjög líklega náðarhögg menntakerfisins. Kennarar eru nú þegar farnir að segja upp sem er skiljanlegt og væri ég undrandi ef augljós vanvirðing sveitarstjórnafólks um land allt gagnvart kennurum og börnum hefði ekki þessi áhrif. Á sama tíma og gagnrýnt er að staða barna hafi sjaldan eða aldrei verið eins slæm og núna í skólum landsins er sérkennileg afstaða að semja ekki við kennara heldur sitja hjá og horfa á skóla landsins, bæði leik- og grunn- og framhaldsskóla tæmast af kennurum. Eftir standa þá byggingar þar sem gæsla fer fram enda er skóli án kennara bara bygging.

Skrítnast finnst mér að lítið sem ekkert heyrist frá foreldrum, foreldrum barna sem núna eru með börn í leikskóla sem brátt verður að gæsluvelli þar sem kennarar fara í önnur störf. Ekki tekur neitt betra við í grunnskólanum þar sem einhver mögulega og vonandi góð manneskja situr með börnunum ykkar yfir daginn en hefur hvorki hæfni né þekkingu til að kenna það efni sem krafist er í aðalnámskrá grunnskóla og leikskóla. Er foreldrum í alvöru sama um hvað fer fram í skólum barna sinna og hver sér um þá menntun sem á samkvæmt lögum að fara þar fram? Ef ykkur er ekki sama kæru foreldrar krefjist þá svara frá frá ykkar bæjastjóra/sveitastjóra hver þeirra afstaða er gagnvart því að ganga til samninga við kennara landsins áður en meiri skaði verður á menntakerfi þessa lands. Foreldrar eru öflugir kjósendur sem eiga að standa vörð um menntun barna sinna. Krefjist nú svara og standið með menntun til framtíðar.

Höfundur er leikskólakennari.




Skoðun

Skoðun

Sam­úð

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar

Sjá meira


×