Fótbolti

Fjórar breytingar hjá Ís­landi: Löng bið Andreu á enda og tíma­mót hjá Glódísi

Sindri Sverrisson skrifar
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir á ferðinni gegn Sviss á föstudaginn, eftir að hún kom inn á fyrir Dagnýju Brynjarsdóttur í sínum fyrsta landsleik frá árinu 2021.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir á ferðinni gegn Sviss á föstudaginn, eftir að hún kom inn á fyrir Dagnýju Brynjarsdóttur í sínum fyrsta landsleik frá árinu 2021. Getty/Daniela Porcelli

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir er í byrjunarliði Íslands í fyrsta sinn í tæp fjögur ár, þegar liðið mætir Frakklandi í Þjóðadeildinni í fótbolta í Le Mans í kvöld.

Þorsteinn Halldórsson gerir fjórar breytingar á byrjunarliðinu frá markalausa jafnteflinu við Sviss ytra á föstudaginn.


Byrjunarlið Íslands gegn Frökkum:

Mark: Cecilía Rán Rúnarsdóttir.

Vörn: Guðný Árnadóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sædís Rún Heiðarsdóttir.

Miðja: Sandra María Jessen, Alexandra Jóhannsdóttir, Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir.

Sókn: Sveindís Jane Jónsdóttir.


Fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir er á sínum stað og spilar sinn 134. A-landsleik sem gerir hana að næstleikjahæstu landsliðskonu Íslands frá upphafi. Aðeins Sara Björk Gunnarsdóttir hefur spilað fleiri A-landsleiki, eða 145 talsins, en Katrín Jónsdóttir er nú ein í 3. sæti með 133 leiki.

Við hlið Glódísar er Ingibjörg Sigurðardóttir sem spilar sinn 70. A-landsleik.

Endurkoma Andreu og Mundu

Andrea kemur inn á miðjuna fyrir Dagnýju Brynjarsdóttur sem fékk höfuðhögg í leiknum gegn Sviss á föstudaginn. Andrea, sem leikur með Tampa Bay Sun í næstbestu deild Bandaríkjanna, kom inn á fyrir Dagnýju gegn Sviss og lék þá sinn fyrsta landsleik síðan sumarið 2021.

Þá kemur Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir inn og spilar sinn fyrsta mótsleik fyrir landsliðið frá því að hún fékk ósanngjarnt rautt spjald gegn Portúgal í HM-umspilinu haustið 2022.

Sandra María Jessen og Guðný Árnadóttir koma einnig inn í byrunarliðið en út fara þær Dagný, Guðrún Arnardóttir, Emilía Kiær Ásgeirsdóttir og Hlín Eiríksdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×