„Ég er algjörlega sammála þér,“ sagði Magnús einfaldlega er hann var spurður hvort tap Eyjamanna hafi ekki verið fullstórt miðað við hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist í kvöld. Hann segist þó ekki hafa fulla skýringu á því hvað breyttist milli hálfleika.
„Það er góð spurning. Ég hugsa að það sé vegna þess að Andri (Erlingsson) þreytist. Hann var búinn að taka gríðarlega margar árásir, nánast allar árásirnar, á gríðarlega löngum kafla. Við hefðum þurft að fá framlag frá fleiri leikmönnum.“
Þá segir hann að mikið hafi vantað upp á varnarleik liðsins.
„Ég veit ekki hvað það er en mér fannst þetta dauft. Það er kannski orðið sem ég er að leita að. Þetta var allt of dauft eitthvað. Það vantaði einhvern eldmóð sem hefur oftar en ekki einkennt okkur og okkar vörn. Ég veit ekki hvar on-takkinn er á henni, en það þarf að leita að honum.“
Eyjamenn eru nú dottnir úr leik í bikarnum og sitja í sjötta sæti Olís-deildar karla. Magnús segir að liðið þurfi að snúa genginu við á næstu vikum svo að þetta verði ekki vonbrigðatímabil í Vestmannaeyjum.
„Við verðum að reyna að ná í okkar leik, sem við teljum okkur hafa sýnt í kannski seinustu þremur leikjum. Okkur vantar meiri stöðugleika, ég held að það sé alveg nokkuð ljóst. Hvernig við náum í hann er svo stóra spurningin,“ sagði Magnús að lokum.