Erlent

Bein út­sending: Gera aðra at­lögu að tunglinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Aþena, lendingarfar Intuitive Machines, er tilbúið á skotpalli í Kennedy-miðstöðinni í Flórída.
Aþena, lendingarfar Intuitive Machines, er tilbúið á skotpalli í Kennedy-miðstöðinni í Flórída. NASA

Starfsmenn SpaceX, Geimvísíndastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og fyrirtækisins Intuitive Machines ætla að senda lendingarfar af stað til tunglsins í kvöld. Þetta er annað slíka lendingarfar IM en það síðasta var fyrsta bandaríska geimfarið sem lenti á tunglinu í rúma hálfa öld.

Var það einnig í fyrsta sinn sem einkafyrirtæki lenti fari á tunglinu. Það geimfar hét Ódysseifur en virkaði í einungis nokkra daga sökum þess að það lenti með um þrjátíu gráðu halla.

Sjá einnig: Lentu á tunglinu í fyrsta sinn í hálfa öld

Lendingarfarið sem sent verður af stað til tunglsins í kvöld, gangi allt eftir, ber nafnið Aþena. Ferðin til tunglsins mun taka um eina viku og stendur til að reyna að lenda því þar á fimmtudaginn í næstu viku.

Aþena ber vísindabúnað sem nota á til að rannsaka yfirborð tunglsins og undirbúa mannaðar ferðir til tunglins. Bor verður notaður til að rannsaka tunglryk og hvort finna megi einhver efni i því, þar sem fari á að lenda á sléttu sem kallast Mons Mouton, nærri suðurpól tunglsins.

Samferða Aþenu veðrur geimfarið Lunar Trailblazer frá NASA. Því geimfari er ætlað að fara á sporbraut um tunglið og á að nota það til að skrásetja ís á tunglinu. Slíkan ís má finna í gígum á tunglinu.

Litlar líkur eru á því að veðrið muni koma niður á geimskotinu, sem á að eiga sér stað korter yfir tólf í nótt. Geimförunum verður skotið á loft með Falcon 9 eldflaug SpaceX.

Hægt verður að fylgjast með geimskotinu í spilaranum hér að neðan.

Bandaríkjamenn hafa sett sér það markmið að lenda aftur á tunglinu á næstu árum og kom þar upp bækistöð sem nota á sem stökkpall lengra út í sólkerfið, eins og til Mars. Áætlun þessi kallast Artemis-áætlunin en í grískri goðafræði er Artemis systir Apollo.

Ein geimferð hefur verið til tunglsins vegna Artemis en sú var ómönnuð. Til stendur að senda Artemis II af stað í apríl á næsta ári en þá verða geimfarar sendir á braut um tunglið, án þess að lenda þar. Upprunalega stóð til að senda geimfarana til tunglsins í nóvember en því var nýverið frestað.

Fyrstu geimfararnir eiga að lenda aftur á tunglinu í Artemis III. Áætlað er að sú geimferð eigi sér stað um mitt ári 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×