Erlent

Lög­reglan lýsir dauða Hackman og konu hans sem „grun­sam­legum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá heimili Gene Hackman og Betsy Arakawa í Santa Fe í Nýju-Mexíkó.
Frá heimili Gene Hackman og Betsy Arakawa í Santa Fe í Nýju-Mexíkó. AP/Roberto E. Rosales

Bandaríski leikarinn Gene Hackman og eiginkona hans, píanóleikarinn Betsy Arakawa, höfðu verið látin í einhvern tíma þegar þau fundust í gær. Þá fundust þau í sitthvoru herberginu á heimili sínu í Nýju-Mexíkó.

Samkvæmt leitarheimild lögreglunnar, sem Sky News vitna í, fannst Arakawa á baðherergi í húsinu og Hackman fannst í herbergi þar sem blaut föt og skór voru hengd til þerris, almennt kallað þurkherbergi.

Einn hunda þeirra hjóna fannst einnig dauður.

Lögreglan hefur ekki gefið upphvernig þau dóu en fyrr í dag var gefið út að ekki væri talið að það hafi gerst með glæpsamlegum hætti. Vangaveltur hafa verið uppi um að gasleka sé um að kenna en dóttir þeirra hjóna hefur meðal annarra lagt það til.

Blaðamenn TMZ hafa einnig komið höndum yfir áðurnefnda leitarheimild. Hafa þeir eftir rannsóknarlögreglumanni sem skrifaði hana að hann teldi dauða hjónanna nægilega grunsamlegan til að rannsaka þyrfti málið ítarlega.

Þar segir að þeir sem komu að líkum hjónanna hafi komið að útidyrum hússins opnum en allar aðrar dyr reyndust læstar. Ekkert bendi til þess að brotist hafi verið inn og svo virðist sem ekkert hafi verið tekið. Einn lifandi hundur hafi verið fyrir utan húsið og hinir tveir hafi verið nærri Arakawa og annar þeirra dauður.

Rannsóknarlögregluþjónninn skrifar einnig að opið pilluglasi hafi legið á gólfinu nærri henni og að engin augljós merki gasleka hafi verið sýnileg. Hann segir einnig að ástand líkanna bendi til að hjónin hafi verið dáin í einhvern tíma.

Hackman var 95 ára gamall og Arakawa var 63.

Verkamenn sem fundu þau munu hafa séð þau á lífi fyrir um tveimur vikum. Starfsmenn gasfyrirtækis munu hafa verið kallaðir á vettvang og fundu þeir engin ummerki gasleka og virtist allt vera í lagi með gasleiðslur í húsinu og við það.

Lögreglan segir engin sár hafa fundist á líkum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×