Handbolti

„Ég er bara klökkur“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rúnar skýtur að marki í leiknum en hann skoraði fjögur mörk fyrir Framara.
Rúnar skýtur að marki í leiknum en hann skoraði fjögur mörk fyrir Framara. Vísir/Anton Brink

Rúnar Kárason var eitt sólskinsbros eftir sigur Framara á Stjörunni í úrslitum Powerade-bikarsins í handknattleik. Hann sagði frábært að sjá góða niðurstöðu eftir mikla vinnu hjá félaginu.

„Þetta er ógeðslega gott og líka miðað við árið sem við áttum í fyrra. Að við séum byrjaðir að vinna titla í ár, það er mikil vinna á bakvið það. Það er hálf óvænt að það gerist svona snemma og ég er bara klökkur,“ sagði Rúnar í viðtali við Vísi strax að leik loknum á Ásvöllum.

Framarar áttu erfitt tímabil í fyrra. Þeir lentu í miklum meiðslum en á þessu tímabili hefur þessi ungi leikmannahópur sprungið út og niðurstaðan er bikarmeistaratitill auk þess sem liðið er í toppbaráttu Olís-deildarinnar. Hver er ástæðan fyrir þessu?

„Ég ætla ekki að fara að segja ykkur það!“ sagði Rúnar brosandi en bætti svo við.

„Frábær hópur af ungum strákum að koma upp. Við þurftum aðeins að kjöta þá upp í sumar og halda áfram að kenna þeim strúktúr. Það er að virka og geggjað að sjá niðurstöðuna.“

Rúnar hrósaði Stjörnuliðinu en var með á hreinu hvað gerði gæfumuninn fyrir Framara.

„Mér fannst Stjarnan spila ógeðslega vel og mikil virðing fyrir því sem þeir gerðu í dag. Ég held að við höfum haft meiri orku og gæði til að klára leikinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×