Frækinn sigur Íslands á Tyrklandi hér heima á sunnudaginn fyrir rétt rúmri viku síðan tryggði EM sætið og ljóst fljótlega eftir leik hversu mikilvæg stundin var leikmönnum liðsins, Martin og Elvari, sem deila vináttuböndum frá barnæsku sinni. Faðmlagið innilegt hjá tveimur af okkar bestu körfuboltamönnum.
„Þetta er ómetanlegt. Hann er minn allra besti vinur, við ólumst upp saman,“ segir Martin í samtali við íþróttadeild. „Ég veit ekki hversu margar rútuferðir maður tók til Njarðvíkur til að hitta hann yfir helgi að gista og öfugt. Við tölum saman daglega, hjálpumst að með allt. Á sumrin erum við saman með börnin okkar, leyfum þeim að kynnast líka. Ómetanleg vinátta.“
„Að gera þetta með þínum besta vini og sjá hann skína í þessu hlutverki. Það er búið að naga mig að innan að geta ekki verið með þeim í mörgum af þessum leikjum. Þá er hann búinn að stíga upp og leiða þetta lið. Það er svo ógeðslega gaman að spila með honum. Mig vantar einhver lýsingarorð. Að gera þetta með Elvari er sérstakt. Við munum lifa á þessu vel og lengi.“