Erlent

Segir Kín­verja munu „berjast til hins síðasta“ í stríði við Banda­ríkin

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lin Jian svarar spurningum blaðamanna í vikunni.
Lin Jian svarar spurningum blaðamanna í vikunni. Getty/Johannes Neudecker

Stjórnvöld í Kína segjast munu „berjast til hins síðasta“ við Bandaríkin, hvort sem er í tollastríði eða öðru stríði. Þau segja stjórnvöld vestanhafs hafa misreiknað sig þegar þau ákváðu að hækka tolla á vörur frá Kína.

Lin Jian, talsmaður utanríkisráðuneytisins, sagði í vikunni að stjórnvöld í Kína ráðlegðu Bandaríkjamönnum að hætta að setja sig í hlutverk „bullunar“ og velja þess í stað samtal og samvinnu.

Ummælum talsmannsins um tollastríð „eða annað stríð“ var deilt á samfélagsmiðlum af sendiráði Kína í Bandaríkjunum.

Lin var spurður út í það í gær hvað hann hefði átt við þegar hann talaði um mögulegt „annað stríð“ og svaraði þá að ef Bandaríkjamenn hefðu annað í huga en samvinnu og væru staðráðnir í að ganga gegn hagsmunum Kína, þá myndu Kínverjar berjast til hins síðasta.

Talsmaðurinn sagði allt tal um tolla sem refsiaðgerðir fyrir innflutning fentanyls til Bandaríkjanna fyrirslátt. Kínverjar hafa brugðist við tollum Bandaríkjastjórnar með því að leggja allt að fimmtán prósent toll á ýmsar landbúnaðarvörur frá Bandaríkjunum.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×