Erlent

Sjúk­lingar með lang­varandi Covid endur­heimta lyktar­skynið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lyktar- og bragðskynið er gríðarlega mikilvægt fyrir lífsgæði fólks.
Lyktar- og bragðskynið er gríðarlega mikilvægt fyrir lífsgæði fólks. Getty

Læknar í Lundúnum hafa aðstoðað tólf sjúklinga sem þjáðust af langvarandi eftirköstum Covid-19 við að endurheimta lyktar- og bragðskynið.

Tap á lyktar- og bragðskyninu er meðal einkenna Covid-19 sýkingar en í sumum tilvikum hefur það ekki gengið til baka þrátt fyrir að langt sé liðið frá því að viðkomandi veiktist.

Talið er að sex af hverjum 100 sem smitast af Covid-19 glími við langvarandi eftirköst og tap á lyktar- og bragðskyninu er meðal 200 einkenna „langvarandi Covid“, eins og það hefur verið kallað.

Læknarnir í Lundúnum virðast hins vegar mögulega hafa fundið leið til að lækna þennan miður skemmtilega fylgifisk Covid-19, sem getur haft veruleg áhrif á lífsgæði fólks.

Lausnin felst í nefaðgerð þar sem nefgöngin eru stækkuð þannig að loftflæði um þau eykst um 30 prósent. Þetta segja sérfræðingarnir virðast stuðla að því að lyktarskynið hrekkur aftur í gang.

Alls tóku 27 einstaklingar þátt í rannsókninni; tólf sem gengust undir aðgerð og þrettán sem héldu áfram í svokallaðri lyktarþjálfun, sem felst í því að þefa ítrekað af sama ilminum.

Allir þeir sem gengust undir aðgerðina sögðu hana hafa bætt lyktarskyn sitt en enginn í samanburðarhópnum. Þar greindu 40 prósent þvert á móti frá því að hafa versnað.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×