Körfubolti

Skaga­menn upp í Bónus deild karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Már Gíslason skoraði tuttugu stig í kvöld.
Kristófer Már Gíslason skoraði tuttugu stig í kvöld. Vísir/Jon Gautur

ÍA tryggði sér í kvöld sæti í Bónus deild karla í körfubolta á næstu leiktíð en liðið tryggði sér þá sigur í 1. deildinni. Efsta liðið fer beint upp en hitt lausa sætið er undir í úrslitakeppninni.

Skagamenn fögnuðu Bónus deildar sætinu eftir níu stiga útisigur á Fjölni í Grafarvoginum í kvöld. ÍA vann 106-97 eftir að hafa verið einu stigi yfir í hálfleik, 53-52.

Skagamenn hafa verið á mikli skriði síðustu vikurnar en þetta var tólfti deildarsigur liðsins í röð.

Allir í byrjunarliðinu voru að skila stigum hjá ÍA í kvöld. Victor Bafutto var með 22 stig og 10 fráköst, Kristófer Már Gíslason bætti við 20 stigum alveg eins og Srdan Stojanovic. Kinyon Hodges skoraði 18 stig og fimmti maður byrjunarliðsins, Lucien Christofis, skoraði 16 stig.

ÍA er nú með 34 stig og ekkert annað lið getur enn náð þeim þótt að það séu enn tvær umferðir eftir.

ÍA á þar með aftur úrvalsdeildarlið í körfunni en það eru liðin 25 ár síðan Skagamenn voru síðast í deild þeirra bestu.

ÍA féll tímabilið 1999-2000 og fór meira að segja alla leið niður í C-deildina. Liðið var í C-deildinni tímabilið 2020-21 en uppbyggingin hefur verið hröð síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×