Upp­gjörið: Tindastóll-Grindavík 88-85 | Lang­þráður Stólasigur

Arnar Skúli Atlason skrifar
Randi Brown skoraði 22 stig fyrir Tindastól í kvöld.
Randi Brown skoraði 22 stig fyrir Tindastól í kvöld. vísir/hulda margrét

Tindastólskonur enduðu átta leikja taphrinu sína í Bónus deild kvenna í körfubolta í kvöld og unnu sinn fyrsta deildarleik síðan í byrjun janúar. Sigur sem gæti farið langt með að koma þeim í úrslitakeppnina.

Tindastóll vann þá þriggja stiga sigur á Grindavík, 88-85, etir framlengdan leik á Króknum og steig með því mikilvægt skref í átt að úrslitakeppninni.

Þetta gæti á móti verið dýrkeypt tap fyrir Grindavikurkonur sem eru ekki inn í úrslitakeppninni þegar aðeins ein umferð er eftir en það er mikil spenna í neðri hluta deildarinnar.

Grindavík byrjaði betur í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Komust yfir í upphafi. Tindastóll svaraði með áhlaupi og komumst yfir um miðjan fyrsta leikhluta og héldu þær forystunni fram að hálfleik. Staðan var 43-35 Tindastól í vil. Randi Brown og Edyta Ewa voru atkvæðamiklar í liði Tindastóls. Daisha Bradford og Isabella Ósk drógu vagninn hinu megin. Staða í hálfleik var 43-35.

Svipað var upp á teningnum í seinni hálfleik, Tindastóll leiddi og hafði þægilega forystu. Grindavík reyndi sem þær gátu að minnka forystuna en við hver áhlaup hjá Grindavík kom svar frá Tindastól. Tindastóll leiddi með með sjö stigum þegar 90 sekúndur lifðu leiks. Grindavík skoruðu seinustu 7 stig hálfleiksins og jöfnuðu leikinn 78-78 og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni var jafnræði á liðunum og var munurinn aldrei meira en 4 stig. Tindastóll samt sem áður skrefinu á undan. Tindastóll leiddi með þremur stigum þegar 6.6 sekúndur voru eftir og Grindavík átti boltann. Það kom í hlut Huldu Bjarkar Ólafsdóttur að taka seinasta skotið en það klikkaði og Tindastóll hafði því sigur í kvöld í hörkuleik.

Atvikið

Edyta Ewa skoraði átta stig í röð og bjó til muninn sem var á liðunum í fyrri hálfleik og hélst framm á lokamínútur leiksins.

Stjörnur

Ilze Jakobsone var frábær hjá Tindastól, spilaði hörkuvörn endaði með 15 stig og 15 stoðsendingar. Randi Brown og Edyta Ewa voru að skila hörku framlagi á sóknarhelming. Tindastóll fékk framlag frá íslensku stelpunum í kvöld sem hefur vantað í þeirra leik.

Hjá Grindavík var Daisha Bradford atkvæðamest með 28 stig og spilaði ekkert í framlengingunni. það voru 6 leikmenn með 10 stig eða meira í liði Grindavíkur í kvöld.

Stemning og umgjörð

Það var flott umgjörð í Síkinu, skiltin og sjálfboðaliðarnir og ekki gleyma tónlistinni. Rættist úr mætingu, skora á að fleiri mæti samt á þessa leiki.

Dómarar [6]

Simmi og félagar fá ekki háa einkunn í dag, voru að sleppa mikið af sjáanlegum villum og endalaust að fara í skjáinn og skoða brot.

Þorleifur Ólafsson er þjálfari Grindavíkurliðsins.Vísir / Pawel Cieslikiewicz

„Við eigum að skammast okkar“

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var gríðarlega ósáttur að leik loknum.

„Ógeðslega lélegar og áttum alls ekkert skilið að vinna þennan leik,“ sagði Þorleifur eftir leikinn sem Grindavík tapaði með þremur stigum í framlengingu.

Grindavík náði að koma leiknum í framlengingu í dag þrátt fyrir að vera undir nánast allan leikinn.

„Mér er skítsama um það. Ég hef aldrei sagt það í viðtölum. Ef ég er svona ógeðslega lélegur þjálfari þá þurfa þær að drullast til að gera það sem ég er að segja þeim að gera. Við tökum eitthvað exicusion sem er búið að æfa og gera og við skorum úr því en þær fara úr því,“ sagði Þorleifur.

„Varnarlega erum við ekki klárar sem við erum að æfa endalaust. Endalaust af djöfulsins fokki sem þær þurfa að rífa upp og annað hvort komumst við ekki í úrslitakeppnina eða dettum út í fyrstu umferð,“ sagði Þorleifur.

Grindavík lenti undir í frákasta baráttunni í leiknum og virkuðu andlausar á köflum.

„Við erum undir öllu. Tindastóll bara flottar. Algjörlega galið og við eigum að skammast okkar,“ sagði Þorleifur.

Israel Martin er þjálfari Tindastólskvenna.Vísir/Jón Gautur

„Loksins stigu lykilmenn upp og tóku ábyrgð“

Israel Martin þjálfari Tindastóls var ánægður að hafa unnið í kvöld, fyrsti sigur þeirra síðan í janúar.

„Ég er mjög stoltur og mjög ánægður. Sérstaklega fyrir hönd liðsins. Þetta er svona týpískur leikur hjá liði sem er búið að vera að tapa leikjum. Þetta var svona leikur sem við áttum erfitt með að klára. Loksins stigu lykilmenn upp og tóku ábyrgð. Þetta var liðssigur og liðsvinna sem kláraði þennan leik. Góð stopp varnarlega og við unnum frákasta og stoðsendingar baráttuna í kvöld,“ sagði Israel Martin.

Tindastóll var að ná góðum stoppum og hafa verið að vinna vel í sínum varnarleik.

„Rannveig gaf okkur mikið varnarlega. Við erum með tvær gerðir af varnarleik. Annars vegar með Rannveigu í miðjunni. Þá að verja teiginn og reynum að skipta lítið. En með Ingu og Zuzann í fimmunni erum við að skipta meira og það er að virka betur með þær. Þetta mun vonandi gefa okkur meira sjálfstraust í að spila með meira frelsi í framhaldinu,“ sagði Martin.

Tindastóll var búið að tapa átta leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld.

„Það er erfitt að vera búin að vera að tapa og tapa og líka að tapa leikjum á seinustu mínútum. En í dag er ég mjög stoltur af hópnum. Sérstaklega í framlengingunni og að vinna Grindavík hérna í dag,“ sagði Martin.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira