Körfubolti

Til­lögu Aþenu vantaði þrjú prósent til að vera tekin fyrir: Gengu út af KKÍ þinginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Karl Sigurðsson er þjálfari Aþenu en honum tókst ekki að halda liðinu í Bónus deildinni á fyrsta tímabili félagsins í deild þeirra bestu.
Brynjar Karl Sigurðsson er þjálfari Aþenu en honum tókst ekki að halda liðinu í Bónus deildinni á fyrsta tímabili félagsins í deild þeirra bestu. Vísir/Diego

Fulltrúar Aþenu á Körfuknattleiksþinginu vildu fá að bæta við tillögu á KKÍ þinginu eftir að frestur til þess var runninn út. Þingið kaus því um hvort ætti að taka hana tillöguna fyrir á þinginu en það var fellt.

Aþena, sem féll út Bónus deild kvenna á dögunum, vildi leggja fram tillögu um að fjölga liðum í efstu deild kvenna upp í tólf lið en tíu lið eru í deildinni í dag.

Þar sem tillagan kom svo seint og löngu eftir að frestur rann út til að leggja slíka tillögu fram fyrir KKÍ þingið þá þurfti að fá tvo þriðju atkvæða (67%) til að hún yrði rædd á þinginu.

Þingið kaus því um þetta og það munaði grátlega litlu að tillagan kæmist á dagskrá þingsins. Fundarstjóri gaf þinginu góðan tíma til að kjósa og smá töf varð á þinginu á meðan.

75 sögðu já en 41 sögðu nei. Það þýddi að já sögðu 64,66 prósent en nei sögðu 35,34 prósent. Tillagan hefði þurft að fá 67 prósent atkvæða til að vera tekin fyrir og það vantaði því bara þrjú prósent upp á.

Fulltrúar Aþenu vildu þá fá endurkosningu þar sem þeir töldu að allir hefðu ekki komist í það að kjósa en fengu neitum þar sem fyrri kosning var dæmd gild. Þau gengu þá út af þinginu.

Það er hægt að fylgjast með beinni útsendingu frá KKÍ þinginu í fréttinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×