Skoðun

Evrópu­sam­bandið og upp­lýsingalæsi

Ægir Örn Arnarson skrifar

Undanfarið hefur umræðan um endurupptöku umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu aftur blossað upp. Sumir halda því fram að það „saki ekki að líta í pakkann“ og að Ísland gæti „samið um undanþágur“ vegna sérstöðu sinnar. Slík rök hafa verið sett fram af ýmsum samfélagsrýnendum og jafnvel kjörnum fulltrúum núverandi stjórnarflokka.

Þessi rök bera vitni um skort á skilningi á eðli aðildarferlisins.

Það er óumdeilanlegt hvað felst í aðild að Evrópusambandinu, ferlið er ekki hefðbundnar samningaviðræður heldur umsóknarferli. Eina atriðið sem samið er um snýr að nákvæmum skilyrðum, tímasetningu aðlögunar, innleiðingu og framfylgd allra gildandi reglna Evrópusambandsins af hálfu umsóknarríkisins. Markmið ferlisins er að tryggja að umsóknarríki séu tilbúin til að axla ábyrgð aðildar og að öll nauðsynleg skilyrði séu uppfyllt áður en aðild er veitt.

Þótt tiltekin umsóknarríki hafi fengið tímabundnar undanþágur frá ákveðnum reglum á meðan á aðlögunarferlinu stendur, er loka niðurstaðan ætíð full aðlögun að lögum og reglum sambandsins. Varanlegar undanþágur eru ekki veittar. Aðlögunarferlið er hannað þannig að stjórnsýsla og löggjöf umsóknarríkisins verði í samræmi við kröfur sambandsins með tímanum. Þannig er tryggt að öll aðildarríki ESB starfi eftir sömu reglum og skilyrðum, sem stuðlar að samheldni sambandsins og eflingu innri markaðarins.

Því er óþarfi að tala um að „líta í pakkann“ eða „taka samtal“, fyrir liggur hvað felst í aðild. Það eina sem þarf er að kynna sér málið.

Helstu upplýsingar um umsóknarferlið er að finna hér:

Conditions for membership - European Commission

ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/doc_93_3

FAQ accession negotiations.pdf

Höfundur er lögfræðingur og nemandi í LL.M. í evrópskum og alþjóðlegum skattarétti við Háskólann í Lundi.




Skoðun

Skoðun

Kjöt og krabba­mein

Hulda María Einarsdóttir,Jórunn Atladóttir,Sigurdís Haraldsdóttir skrifar

Sjá meira


×