Þetta kom fram í viðtali bandaríska miðilsins Politico við Mette í vikunni en DR greinir frá.
„Varaforsetinn, JD Vance, hafði rétt fyrir sér þegar hann varaði við flæði farand- og flóttafólks til Evrópu í febrúar. Ég sé fjöldainnflutning fólks til Evrópu sem ógn gagnvart daglegu lífi í Evrópu,“ sagði Mette.
Hellti sér yfir leiðtoga Evrópu
Vance lét leiðtoga Evrópu heyra það í ræðu sinni á öryggisráðstefnu í München í Þýskalandi í febrúar, en þar sagði hann að óheft flæði fólks til Evrópu væri jafnvel meiri ógn gagnvart öryggi álfunnar en Rússar.
Þá sakaði hann evrópska ráðamenn um að hunsa vilja þjóða sinna, snúa úrslitum kosninga, hunsa trúfrelsi og um að gera ekki nóg til að stöðva flæði flótta- og farandfólks. Hann gagnrýndi þá einnig fyrir viðhorf til þungunarrofs og sakaði Evrópu um að hafa fjarlægst þau hefðbundnu gildi sem heimsálfan hefði deilt með Bandaríkjamönnum.
Ummæli Vance féllu í grýttan jarðveg á ráðstefnunni. Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, gagnrýndi Vance harðlega þegar hann steig á svið. Sagði hann meðal annars að lýðræði þyrfti að geta varið sig gegn öfgum.
Rússar stærsta ógnin
Mette sagðist í viðtalinu ekki geta verið sammála Vance um að Rússar væru ekki stærsta ógn Evrópu, en hann hefði eftir sem áður rétt fyrir sér um innflytjendamálin.
„Þegar ég spyr fólk út í áhyggjur þeirra af öryggismálum, segja þau öll að Rússar og vernd Evrópu séu það allra mikilvægasta eins og sakir standa,“ segir Mette.