Erlent

Palestínskur leik­stjóri barinn af landtökumönnum og hand­tekinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Hamdan Ballal, dreginn upp í bíl, handjárnaður og með bundið fyrir augun.
Hamdan Ballal, dreginn upp í bíl, handjárnaður og með bundið fyrir augun. AP/Raviv Rose

Ísraelskir landtökumenn réðust á og börðu Hamdan Ballal, palestínskan leikstjóra óskarsverðlaunamyndarinnar No other Land í dag. Árásin átti sér stað á Vesturbakkanum en í kjölfarið var leikstjórinn tekinn á brott af hermönnum.

AP fréttaveitan hefur eftir vinum Ballals og vitnum að um tólf landtökumenn, sumir grímuklæddir, sumir vopnaðir byssum og einhverjir þeirra einkennisklæddir, hafi ráðist á þorpið Susiya á Vesturbakkanum.

Hermenn hafi miðað byssum að Palestínumönnum á meðan landtökufólk grýtti þá.

Basel Adra, annar leikstjóri heimildarmyndarinnar, segir árásina hafa byrjað undir kvöld og að ísraelskur maður sem hafi ítrekað ráðist á fólk í þorpinu hafi komið þangað í fylgd hermanna, sem hafi skotið úr byssum sínum upp í loftið.

Þá hefur Adra eftir eiginkonu Ballals að hann hafi verið barinn fyrir utan heimili þeirra og hafi öskrað að verið væri að myrða hann.

Í kjölfarið sá Adra hermenn færa Ballal, handjárnaðan og með bundið fyrir augun upp í herbíl og keyrt hann á brott. Önnur vitni sem blaðamenn ræddu við studdu frásögn Adra. Einn sagði tíu til tuttugu grímuklædda menn, vopnaða kylfum og með grjót, hafi ráðist á hjálparstarfsmenn á svæðinu. Rúður í bílum þeirra hafi verið brotnar og skorið á dekk bílanna.

Fréttaveitan hefur eftir lögmanni Ballals að þrír Palestínumenn hafi verið teknir í hald í Susiya. Þeim sé haldið á herstöð og samkvæmt lögreglunni sé verið að hlúa að þeim þar. Hún hefur þó ekki fengið að hitta leikstjórann.

Times of Israel hefur eftir talsmönnum hersins að áflog hafi byrjað þegar „hryðjuverkamenn“ grýttu bíla Ísraela. Báðar fylkingar hafi svo byrjað að kasta gjóti og þegar hermenn bar að garði hafi þeir einnig orðið fyrir grjóti. Þrír Palestínumenn og einn Ísraeli hafi verið handteknir fyrir grjótkast.

Hafa unnið til margra verðlauna

Heimildarmyndin No other land, hefur unnið til margra verðlauna víða um heim en hún fjallar um baráttu íbúa svæðis á Vesturbakkanum sem kallast Masafer Yatta, við að reyna að stöðva ísraelska herinn í að jafna heimili þeirra við jörðu.

Slík eyðilegging er tíð á Vesturbakkanum, sem Ísraelar hertóku ásamt Gasaströndinni og Austur-Jerúsalem árið 1967. Síðan þá hafa Ísraela reist vel á annað hundrað landtökubyggðir á Vesturbakkanum, þar sem rúmlega hálf milljón landtökumanna búa.

Sjá einnig: Landtökumenn ganga berserksgang á Vesturbakkanum

Masafer Yatta var skilgreint sem æfingasvæði fyrir ísraelska herinn á níunda áratug síðustu aldar og var íbúum gert að yfirgefa svæðið og er þar að mest um að ræða Bedúína. Margir hafa þó reynt að halda til áfram á svæðinu en hermenn mæta reglulega til að rífa niður híbýli þeirra, tjöld og vatnstanka.

Hér að neðan má sjá þegar Hamdan Ballal, Basel Adra og hinir tveir leikstjórar No other land, þau Yuval Abraham og Rachel Szor, frá Ísrael, tóku við óskarsverðlaununum í upphafi mánaðarins. Bæði Ballal og Adra eru frá Masafer Yatta.


Tengdar fréttir

Sendu skriðdreka inn á Vesturbakkann í fyrsta sinn í 23 ár

Ísrael hefur sent skriðdreka inn á Vesturbakkann í fyrsta sinn í meira en tuttugu ár. Varnarmálaráðherra Ísrael sagði að ísraelskt herlið verði þar að minnsta kosti út árið og að þeir fjörutíu þúsund Palestínumenn sem hafa flúið heimili sín fái ekki að snúa aftur.

Gera umfangsmikið áhlaupa á Vesturbakkanum

Ísraelskir hermenn gerðu í morgun áhlaup á Jenin á Vesturbakkanum, sem talið er að muni standa yfir í að minnsta kosti nokkra daga. Áhlaupið hófst á nokkrum drónaárásum sem herinn segir að hafi beinst að innviðum hryðjuverkasamtaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×