Innlent

Aukin harka að færast í undirheimana

Jón Þór Stefánsson skrifar
Höfuðstöðvar lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru á Akureyri.
Höfuðstöðvar lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru á Akureyri. Vísir/Vilhelm

„Við höfum viljað vekja á aukinni hörku í undirheimunum og samfélaginu,“ segir Skarphéðinn Aðalsteinn, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, en í gær greindi lögreglan frá þónokkrum ofbeldismálum sem hafa komið upp í umdæminu á undanförnum dögum og vikum.

„Það er aukinn vopnaburður, sem við óttumst náttúrulega. Þetta er sá raunveruleiki sem við erum með,“ segir Skarphéðinn sem bætir við að þeir fyrir norðan taki undir áhyggjur kollega þeirra annars staðar á landinu.

Á meðal þess sem greint var frá í gær var mál þar sem manni var kastað fram af svölum.

„Maðurinn var ekki lífshættulega slasaður, en árásin var alvarleg,“ segir Skarphéðinn. „Það var óttast um hann fyrst, til að byrja með, en hann reyndist ekki mikið meiddur.“

Einnig var greint frá atviki, sem átti sér stað á laugardaginn um síðustu helgi þar sem visvítandi var ekið á mann innanbæjar á Akureyri.

„Hann slapp alveg ótrúlega vel sá maður sem betur fer. Hann er lítið meiddur. Það var óhugnanleg árás líka.“

Að sögn Skarphéðins er ekki vitað hvort þessi mál tengist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×