Fótbolti

Chelsea og Man City gætu þénað sex­tán milljarða á HM fé­lags­liða

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gætu þénað ótrúlega upphæð fari þau alla leið á HM félagsliða.
Gætu þénað ótrúlega upphæð fari þau alla leið á HM félagsliða. Michael Regan/Getty Images

Nýtt fyrirkomulag HM félagsliða í knattspyrnu gæti skilað ensku félögunum Chelsea og Manchester City 97 milljónum punda í vasann, það gerir sextán milljarða íslenskra króna.

Alls munu 32 lið taka þátt í þessu nýja fyrirkomulagi keppninnar sem hefur lengi vel ekki verið í hávegum höfð. Hér áður fyrr var um að ræða hálfgert hraðmót milli jóla og nýárs en nú mun keppnin innihalda 32 lið og mun fyrirkomulagið líkjast því sem þekkist frá stórmótum landsliða.

Verðlaunaféð er samtals 775 milljónir punda. Til að byrja með verður 407 milljónum deilt á milli þátttökuliðanna, ekki munu þó öll liðin fá jafn stóran hlut. Hinar 368 milljónirnar munu svo deilast niður á félögin eftir árangri þeirra í keppninni.

Milljónunum 407 verður deilt niður á íþrótta- og viðskiptalegum grundvelli. Það þýðir að stærstu lið Evrópu geta þénað meira en stærstu lið annarra heimsálfa. Þar sem Chelsea og ManCity hafa bæði unnið Meistaradeild Evrópu á undanförnum árum geta þau þénað allt að 16 milljarða fari svo að þau vinni alla sína leiki.

Væri það hæsta verðlaunafé í sögunni miðað við spilaða leiki en liðin sem komast í úrslit HM félagsliða munu hafa spilað sjö leiki talsins.

HM félagsliða fer fram í Bandaríkjunum frá 15. júní til 13. júlí á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×