Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá trjáfellingarvél austfirska fyrirtækisins Tandrabrettis saga síðasta tréð á fimmta tímanum síðdegis.
„Við vorum búnir í fyrradag en svo var bara gerð önnur mæling og þá kom bara eitthvað í ljós. En við erum búnir núna með það sem bættist við,“ segir Einar Birgir Kristjánsson, framkvæmdastjóri Tandrabrettis.

Þeir eiga þó eftir að snyrta svæðið, sem Einar áætlar að taki tvo til þrjá daga. Síðan eigi eftir að keyra öllu timbrinu í veg fyrir skip í Hafnarfirði.
Tvær vikur eru frá því starfsmenn Tandrabrettis mættu með tæki sín og tól í Öskjuhlíðina. Núna má víða um skóginn sjá myndarlega timburstafla sem fluttir verða með skipinu austur á Eskifjörð til timburvinnslu. Þetta er nefnilega nytjaviður.

„Mjög flott timbur. Þetta er beint og flott timbur,“ segir Einar.
Þar sem áður var kafþykkur skógur hefur núna opnast útsýni úr Öskjuhlíð yfir Skerjafjörð. Með ruðningi skógarins hefur myndast víðáttumikið rjóður.

Og Beneventum-klettarnir, sem huldir hafa verið nánast skógarmyrkviði undanfarna áratugi, eru komnir í ljós. Þar fóru áður fram busavígslur nýnema Menntaskólans við Hamrahlíð en klettarnir eru sagðir hafa verið samkomustaður skólapilta Lærða skólans á 19. öld.

Vakið hefur athygli að Austfirðingar vinna verkið fyrir mun lægri fjárhæð en ráðamenn borgarinnar töldu að það myndi kosta.
„Ég las það í Morgunblaðinu að það munar 400 milljónum. Eða 450 milljónum,“ segir Einar og vísar til fréttar af mismunandi háum tilboðum í verkið.
-Og þið fáið hvað mikið?
„Við fáum 20 milljónir fyrir þetta,“ svarar Einar Birgir.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er stefnt að því að morgundagurinn verði notaður til að sannreyna hvort aðflugslínan sé núna laus við hindranir. Ef svo reynist gæti austur/vestur brautin opnast á miðnætti annaðkvöld.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: