Fótbolti

Eigin­konan varð að færa Marqu­in­hos miklar sorgar­fréttir

Sindri Sverrisson skrifar
Marquinhos, Carol Cabrino og börn þeirra þrjú eftir að PSG varð franskur bikameistari í fyrravor.
Marquinhos, Carol Cabrino og börn þeirra þrjú eftir að PSG varð franskur bikameistari í fyrravor. Getty/Jean Catuffe

Carol Cabrino, eiginkona Marquinhos fyrirliða knattspyrnuliðs PSG í Frakklandi, greindi frá því á Instagram í gær að hún hefði misst fóstur.

Cabrino og Marquinhos áttu von á sínu fjórða barni og var Cabrino komin á níundu viku óléttunnar.

„Meðgangan gekk ekki upp. Litla barnið mitt er orðið að engli,“ segir Cabrino á Instagram, samkvæmt frétt L‘Equipe, og bætir við: „Ég veit um marga sem hafa gengið í gegnum þetta en ég hélt að þetta kæmi aldrei fyrir mig. Sársaukinn er óbærilegur. Núna tekur við sorgarferli.“

Cabrino segist hafa neyðst til að flytja Marquinhos fréttirnar þar sem að hann hafi ekki verið heima. Þessi þrítugi miðvörður var staddur með brasilíska landsliðinu í Suður-Ameríku, í 2-1 sigri gegn Kólumbíu og 4-1 tapi gegn Argentínu í undankeppni HM.

„Núna þarf ég að jafna mig. Ég þarf að ná aftur andlegri heilsu. Ég myndi ekki óska nokkrum þess að ganga í gegnum þetta en þetta getur gerst,“ sagði Cabrino.

Þau Marquinhos eiga börnin Eduarda (7 ára), Enrico (5 ára) og Marina (2 ára).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×