Lífið

Hanna Katrín heiðraði Eyjólf í Epal

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ráðherra með Eyjólfi.
Ráðherra með Eyjólfi.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra heiðraði Eyjólf Pálsson stofnanda Epal fyrir hálfrar aldar starf í þágu íslenskrar hönnunar í nýja Landsbankanum í vikunni. Fjárfestum í hönnun, sem er hluti af HönnunarMars sem stendur yfir fram á sunnudag í húsnæði bankans.

Í ræðu Hönnu Katrínar kom fram að Eyjólfur hefði haft mikil áhrif á samfélagið og þjóðlífið með sterkum hugmyndum, kraftmiklum nýjungum og kynnt Íslendinga fyrir gæðahönnun síðustu fimmtíu ár. Þá þakkaði hún honum fyrir ómetanlegt framlag og drifkraft í þágu íslenskrar hönnunar.

„Með áratugalangri elju, framsýni og sköpunarkrafti hefur Eyjólfur Pálsson sannað sig sem einn mikilvægasta talsmann hönnunar á Íslandi. Arfleifð hans í íslenskri hönnunarsögu er ómetanleg, enda hefur starf hans haft áhrif langt út fyrir hans eigin fyrirtæki og náð að móta hönnunarmenningu þjóðarinnar,“ sagði Hanna Katrín við þetta tilefni.

Eyjólfur flutti sjálfa stutta ræðu, og ítrekaði hversu mikill heiður væri að taka á móti viðurkenningu á tímamótum. Hann hefði fyrst og síðast reynt að gera fallega hönnun hluta af daglegu lífi okkar allra, hönnun sem blandar saman fagurfræði, gæðum og notagildi.

„Þegar ég lít til baka yfir þennan langa og lærdómsríka feril, sé ég ekki bara árin sem liðin eru, heldur þá fjölmörgu einstaklinga sem hafa lagt hönd á plóg. Ég hef oft hugsað starf okkar eins og sinfóníuhljómsveit. Ég hef verið svo lánsamur að stofna hljómsveitina og vera hljómsveitarstjórinn lengst af, sá sem stýrir og stillir saman og velur verkin sem flytja skal. En einsog þið þekkið er engin hljómsveit bara stjórinn einn. Okkar frábæra starfsfólk, ráðgjafar, vinir og velunnarar eru tónlistarfólk í fremstu röð, hvert og eitt með sitt einstaka hljóðfæri og hæfileika. Og svo eru það hönnuðirnir: Tónskáldin, sem skapa þau stef sem við fáum að miðla til heimsins,“ sagði Eyjólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.