Fjallað var um það í kvöldfréttum RÚV í gær að fjórðungur eftirlitsmyndavéla í miðborg Reykjavíkur hefði verið úti í gær, alls 14 eftirlitsmyndavélar. Lögregla sagði ófremdarástand uppi og sagði ótækt að Reykjavíkurborg hefði sagt upp samstarfssamningi borgarinnar, Neyðarlínunnar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra um rekstur og stýringu á eftirlitsmyndavélum í mars árið 2023.
„Mér líst vel á að lögreglustjóri og borgarstjóri ætli að funda um málið,“ segir Þorbjörg Sigríður sem var spurð út í málið að loknum ríkisstjórnarfundi í dag en fram kom í frétt RÚV í gær að borgarstjóri og lögreglustjóri ætli að funda á föstudag.
Hún segir að þegar horft er til öryggis og öryggistilfinningar borgara þá skipti þessar myndavélar máli. Hún bindi því vonir við að leyst verði úr málinu hratt og vel. Hún segir myndavélarnar geta haft mikla þýðingu við rannsókn sakamála og upptökur séu mikilvæg gögn þegar til dæmis líkamsárásir eigi sér stað í miðbænum eða annars konar brot.
„Þá eru þetta oft fínustu sönnunargögn, efnið sem er í þessum myndavélum,“ segir Þorbjörg Sigríður og að hún hafi skilning á sjónarmiði aðstoðaryfirlögregluþjóns sem lýsti mikilli óánægju með þetta í kvöldfréttum RÚV í gær.

Vonar að málið verði leyst
„Ég ætla að trúa því að úr þessu verði leyst af hálfu borgarinnar.“
Hún segist ætla að bíða eftir niðurstöðu fundar borgarstjóra og lögreglustjóra áður en hún ákveður hvort hún stígi inn í málið.
„Þessar myndavélar, þær skipta máli, og ég ætla að gefa mér það að fólk leysi úr stöðunni.“