Salah hefur leikið með Liverpool síðan 2017 en núgildandi samningur hans við félagið rennur út í sumar.
Egyptinn hefur ekki enn framlengt samning sinn við Liverpool og fyrr í vetur gaf hann í skyn að þetta tímabil yrði hans síðasta hjá Bítlaborgarfélaginu.
Enskir fjölmiðlar greina núna frá því að góður gangur sé í samningaviðræðum Salahs við Liverpool og hann gæti skrifað undir nýjan samning við félagið.
Hinn 32 ára Salah hefur skorað 32 mörk í öllum keppnum á þessu tímabili, þar af 27 í ensku úrvalsdeildinni þar sem Liverpool er með ellefu stiga forskot.
Fyrr í vikunni greindi Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, frá því að samningaviðræður hans við félagið hefðu gengið vel. Samningur Hollendingsins við Liverpool rennur út í sumar.
Hins vegar er búist við því að Trent Alexander-Arnold, sem verður einnig samningslaus í sumar, fari til Real Madrid.
Salah hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Liverpool, meðal annars Meistaradeild Evrópu 2019 og Englandsmeistaratitilinn árið eftir. Hann hefur skorað 243 mörk í 394 leikjum fyrir Liverpool og er þriðji markahæsti leikmaður í sögu félagsins.