„Þetta er lítil hrina sem er í gangi sem byrjaði rétt eftir klukkan sex,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Ekki er búið að yfirfæra alla skjálftana en eru þeir flestir 1,5 til 2,5 á stærð. Draga fór úr hrinunni upp úr klukkan sjö.

„Það eru búnir að mælast um þrjátíu skjálftar, þetta eru frekar djúpir skjálftar,“ segir Bjarki.
Hann segir sérfræðinga á Veðurstofunni ekki hafa miklar áhyggjur eins og er. Mögulega sé kvika á hreyfingu undir jarðskorpunni en hún er ekki komin í skorpuna.
Einnig var sett upp jarðskjálftastöð á svæðinu í fyrrahaust og því mælist fleiri minni skjálftar á svæðinu en áður. Sérfræðingarnir koma til með að fylgjast áfram með stöðunni.
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands gerir hrinunni skil á Facebook-hóp sínum og segja hrinuna líklega mestu hrinu sem hefur nokkurn tímann mælst á þessum slóðum.