Skoðun

Kosningar í stjórn Visku: Þitt at­kvæði skiptir máli!

Eydís Inga Valsdóttir skrifar

Kosningum til stjórnar Visku, sem hófust 9. apríl, lýkur á morgun, 16. apríl, klukkan 12:00. Þetta eru tímamót – í fyrsta sinn kjósa félagsmenn í stjórn Visku, og nú er kosið um öll sæti.

Viska varð til 1. janúar 2024 við sameiningu þriggja stéttarfélaga innan BHM og hefur vaxið ört síðan. Í dag er félagið stærsta aðildarfélag BHM og þjónar fjölbreyttum hópi sérfræðinga með háskólamenntun um allt land. Þetta er því mikilvæg stund til að hafa áhrif á framtíð nýs sameinaðs stéttarfélags.

Nú gefst einstakt tækifæri til að velja leiðtoga fyrir þetta unga og upprennandi stéttarfélag. Félagið hefur alla burði til að hafa afgerandi áhrif á líf félagsmanna sinna með því að standa sem sterkur málsvari hagsmuna þeirra, stuðla að jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og tryggja að menntun sé virt og metin með réttlátri launagreiðslu. Þetta er tækifæri til að móta næstu skref félagsins og styrkja þá þjónustu sem félagið veitir.

Þátttaka í stjórnarkosningum stéttarfélaga hefur verið heldur dræm á síðustu árum. Það er mikilvægt að breyta þessu mynstri, því að með því að taka þátt í kosningunum fá félagsmenn tækifæri til að móta starfsemi og hlutverk félagsins. Ég hvet allt félagsfólk Visku til að nýta atkvæðisrétt sinn, velta fyrir sér hver þau vilja sjá við stjórnvölinn og taka upplýsta ákvörðun sem hefur áhrif á þróun félagsins til framtíðar.

Ég býð mig fram í stjórn Visku því ég trúi því að félagið geti haft raunveruleg áhrif á hagsmuni fyrir félaga sína. Viska stendur á tímamótum og ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum til að styrkja stöðu félagsins sem hagsmunavörður háskólamenntaðra sérfræðinga og skapa vettvang þar sem raddir félagsmanna fá að heyrast. Þú getur kynnt þér áherslur mínar betur á www.eydisinga.is

Höfundur er sérfræðingur á sviði menntasamstarfs og frambjóðandi til stjórnar Visku




Skoðun

Sjá meira


×