Fótbolti

Real Madrid fer liða verst út úr myndbandsdómgæslunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe og félögum í Real Madrid finnst á sér brotið þegar kemur að dómgæslu og þá sérstaklega myndbandsdómgæslu.
Kylian Mbappe og félögum í Real Madrid finnst á sér brotið þegar kemur að dómgæslu og þá sérstaklega myndbandsdómgæslu. Getty/Charlotte Wilson

Leikmenn og forráðamenn Real Madrid hafa vælt og skælt undan myndbandsdómgæslunni í allan vetur og kannski hafa menn þar á bæ eitthvað til síns máls.

Spænska blaðið AS fór í gegnum alla VAR-dóma í spænsku deildinni á leiktíðinni og komst að því að Real Madrid er annað þeirra tveggja liða í deildinni sem koma verst út úr myndbandsdómgæslunni, það er hafa tapað mest á henni.

Á meðan Barcelona hefur grætt þrettán sinnum á afskiptum myndbandsdómara þá hefur Real Madrid tapað á slíkum afskiptum í 15 af 21 skipti. Þeir ásamt nágrönnunum í Alavés hafa þannig komið verst út úr Varsjánni á leiktíðinni.

Real Madrid væri þannig með sjö stigum meira en Barcelona væri aftur á móti með fimm stigum færra ef ekkert VAR væri í boltanum.

Það fylgir þessari samantekt að myndbandsdómarar hafa gripið oftar inn í leikina en áður. Metið er 179 afskipti frá árinu 2022-23 en þeir hafa þegar breytt 162 dómum. Það stefnir því í VAR-met í spænska boltanum.

Frá því að myndbandsdómgæslan var tekin upp á 2018-19 tímabilinu hefur Real Madrid gagnrýnt hana og oft kallað hana "World War III".

AS er blað í Madrid og því örlítið hlutdrægt í sinni umfjöllun en það breytir ekki því að þeir hafa fært sönnun fyrir óánægju þeirra manna í Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×