Erlent

Úkraínu­fundinum í London frestað

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Breski utanríkisráðherrann David Lammy hugðist taka á móti mörgum starfsbræðrum sínum í London í dag til að ræða málefni Úkraínu og Rússlands. Fundinum hefur nú verið frestað.
Breski utanríkisráðherrann David Lammy hugðist taka á móti mörgum starfsbræðrum sínum í London í dag til að ræða málefni Úkraínu og Rússlands. Fundinum hefur nú verið frestað. AP

Friðarviðræðum sem halda átti í London vegna Úkraínustríðsins í dag var aflýst nú í morgunsárið.

Breski utanríkisráðherrann David Lammy ætlaði þar að taka á móti kollegum sínum frá stærstu Evrópuríkjunum og var meðal annars von á Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundinn og utanríkisráðherra Úkraínu. 

Nú er ljóst að ekkert verður af fundinum að öðru leyti en því að lægra settir fulltrúar landanna ætla að ræða saman á vinnufundi sem haldinn verður fyrir lokuðum dyrum. 

Sky fréttastofan segir að ástæða þess að fundinum var frestað hafi verið tillaga sem Bandaríkjamenn hafi lagt fram í gær og gerir ráð fyrir því að Bandaríkin viðurkenni yfirráð Rússa yfir Krímskaga og að núverandi víglína verði notuð til að skipta austurhéruðum Úkraínu á milli Rússa og Úkraínu. 

Þeirri tillögu mun Volodómír Selenskí Úkraínuforseti hafa hafnað eins og skot og því hafi Rubio hætt við að mæta á fundinn. 

Úkraínski utanríkisráðherrann Andrii Sybiha‎ ætlar eftir sem áður að hitta David Lammy á tvíhliða fundi í London, segir í umfjöllun Sky.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×