Upp­gjörið: Valur - KA 3-1 | Jónatan Ingi sýndi sínar bestu hliðar í fyrsta sigri Vals

Hjörvar Ólafsson skrifar
Patrick Pedersen hefur byrjað tímabilið vel með Val.
Patrick Pedersen hefur byrjað tímabilið vel með Val. Vísir/Anton

Valsmenn unnu sannfærandi sigur, 3-1, þegar þeir fengu KA-menn í heimsókn á N1-völlinn að Hlíðarenda í kvöld í þriðju umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Hvorugu liðinu hafði tekist að landa sigri í tveimur fyrstu tveimur umferðunum og sigurinn því kærkominn hjá Valsliðinu.

Leikmenn Vals byrjuðu leikinn betur og voru búnir að banka á dyrnar við mark KA-manna áður en Jónatan Ingi Jónsson kom heimamönnum yfir eftir tæplega stundarfjórðungs leik.

Tryggvi Hrafn Haraldsson slapp til að mynda einn í gegn en Steinþór Már Auðunsson varði frá honum. Það var svo Tryggvi Hrafn sem lagði boltann á Jónatan Inga þegar kantmaðurinn braut ísinn fyrir Valsmenn. Þetta er annað mark Jónatans Inga í deildinni í sumar en hann hefur verið síógnandi í upphafi tímabilsins.

Marcel Ibsen Romer sem gekk til liðs við KA frá Lyngby á dögunum átti góðan leik inni á miðsvæðinu en hann átti góða fyrirgjöf sem var nálægt því að finna kollinn Jóan Símum Edmundsson um miðbik fyrri hálfleiks.

Jónatan Ingi fékk svo flott færi til þess að skora sitt annað mark og tvöfalda forystu Vals skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Patrick Pedersen þræddi þá Jónatan Inga í gegn en Steinþór Már lokaði á hann í tvígang með góðu úthlaupi.

Tryggvi Hrafn kom svo Valsmönnum í 2-0 á 43. mínútu leiksins. Birkir Heimisson setti þá Tryggva Hrafn í gegn og framherjinn renndi boltanum laglega í markið. Tryggvi Hrafn var þarna að opna markareikning sinn á þessari leiktíð.

Þannig var staðan í hálfleik og gestirnir að norðan í erfiðum málum. Sóknarþrenna Vals, Tryggvi Hrafn, Patrick Pedersen og Jónatan Ingi voru í miklu stuði í þessum leik og gerðu varnarmönnum KA lífið leitt.

Jónatan Ingi gerði endanlega út um leikinn þegar tæplega klukkutími var liðinn af leiknum. Jónatan Ingi fékk þá langa sendingu frá Birki, labbaði framhjá Kára Gautasyni og slúttaði með góðu skoti í nærhornið.

Ásgeir Sigurgeirsson skoraði sárabótarmark skömmu síðar en lengra komust KA-menn ekki og 3-1 sigur Vals staðreynd. Valur hefur þar af leiðandi fimm stig eftir þrjá leiki en KA er aftur með eitt stig eftir jafn marga leiki. 

Srdjan Tufagdzic, Túfa, var ánægður með sína menn. Vísir/Diego

Túfa: Kærkomið að landa fyrsta sigrinum

„Við spiluðum vel í þessum leik og stýrðum honum frá upphafi til enda. Við vorum þéttir í varnarleiknum og sköpuðum fullt af góðum stöðum og færum fyrir utan mörkin þrjú sem við skorum,“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, eftir fyrsta sigur Valsliðsins í deildinni í sumar. 

„Það er kærkomið að landa fyrsta deildarsigrinum eftir vonbrigðin í fyrstu tveimur deildarleikjunum. Við höfum verið að spila vel og skapa færi án þess að uppskera hingað til en í kvöld nýttum við stöðurnar og færin betur,“ sagði Túfa sáttur. 

Túfa hrósaði Birki sem lagði upp tvö mörk og Jónatani Inga sem skoraði tvö: „Ég hef mikla trú á Birki og vil hafa hann mikið með boltann í uppspilinu. Hann sýndi það í kvöld hvers vegna við viljum byrja sóknir okkur með því að finna hann í lappir. Jónatan Ingi hefur svo byrjað vel í sumar sem og félagar hans í framlínunni. 

Þeir verða, eins og allir leikmenn liðsins að halda áfram að leggja jafn mikla vinnu í æfingar og leiki og þá halda þeir áfram að uppskera eins og þeir sá. Við eigum erfiðan leik við Víking í næstu umferð og vonandi náum við að spila jafn vel sem lið í vörn og sókn í þeim leik,“ sagði Túfa um lærisveina sína og framhaldið. 

Hallgrímur: Vorum allt of passívír

„Við lögðum upp með að spila okkar leik, halda í boltann, vera hugrakkir í uppspili og sóknaraðgerðum og ná að setja þá undir pressu. Það gekk engan veginn eftir fyrstu 20 mínúturnar en við náðum að komast aðeins betur inn í leikinn eftir því sem leið á. Þeir komast svo í 2-0 fyrir hálfleikinn og holan orðin djúp,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. 

„Við vorum með marga lykilleikmenn í meiðslum á undirbúningstímabilinu og erum að koma þeim í leikform. Það sama á við um Marcel Romer sem komst vel frá þessum leik. Við verðum hins vegar að hætta að pæla í þessum meiðslum og fara að koma af meiri krafti inn í leikina. Það þýðir ekki að halda áfram að ætla að byrja leikinn eftir 15 eða 20 mínútur,“ sagið Hallgrímr enn fremur. 

„Við náðum að setja mark og setja smá þrýsting á þá þegar leið á leikinn. Við getum tekið það með okkur í næstu verkefni en fyrst og fremst getum við mætt jafn passívír til leiks í komandi leiki. Mér finnst liðið þó vera að bæta sig og það er ekkert panikk á okkar bæ þrátt fyrir rýra uppskeru,“ sagði hann. 

„Við erum ekki á leiðinni á markaðinn áður en félagaskiptaglugganum verður lokað í lok þessa mánaðar. Þetta er hópurinn sem við ætlum að keyra á. Við erum ánægðir með hóprinn sem er öflugur og við verðum sterkari þegar okkar sterkustu póstar finna sitt fyrra form,“ sagði Hallgrímur aðspurður um hvort KA væri að leita að liðsstyrk. 

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, sagði leikmenn sína ekki hafa spilað eins og lagt var upp með. Vísir/Pawel

Atvik leiksins

Í hvert skipti sem Jónatan Ingi fékk boltann á hægri kantinum fékk Kári Gautason líklega kaldan svita á bakið og stuðningsmenn Vals risu úr sætum sínum. Jónatan Ingi hefur farið vel af stað í sumar og í kvöld léku hann, Patrick Pedersen og Tryggvi Hrafn við hvurn sinn fingur í sóknarlínu Vals. 

Stjörnur og skúrkar

Bjarni Mark Antonsson Duffield stóð sig vel í hjarta varnarinnar í fjarveru Hólmars Arnar Eyjólfssonar.

Birkir Heimisson var góður sem inndreginn vinstri bakvörður og var upphafsmaður að mörgum hættulegum sóknum Vals. Þórsrarinn hafði líklega gaman af því að leggja upp tvö mörk gegn erkifjanda sínum.

Jónatan Ingi var Kára Gautasyni mjög erfiður ljár í þúfu og Tryggvi Hrafn ógnaði með hraða sínum og krafti á hinum kantinum.

Marcel Ibesen Romer óx með hverri mínútunni inni á miðjunni hjá KA og svo virðist sem Daninn verði mikill liðsstyrkur fyrir liðið.

Dómarar leiksins

Twana Khalid Ahmed og aðstoðarmenn hans Arnar Þór Stefánsson, Birkir Sigurðarson og Þórður Arnar Árnason létur leikinn ganga vel og höfðu góð tök á þessum leik. Oddur Helgi Guðmundsson sá svo til þess að framkvæmd leiksins var til sóma fyrir knattspyrnusamfélagið. Starfsmenn KSÍ fá átta í einkunn fyrir sín störf í þágu samfélagsins.

Stemming og umgjörð

Það var fínasta mæting á Hlíðarenda í kvöld og stuðningsmenn létu fara vel um sig í bongóblíðunni sem gladdi höfuðborgarbrúa í dag og kvöld. Fagmennska í umgjörð Valsliðsins og sjálfboðaliðar þeirra vita vel hvað þeir syngja enda eldra en tvævetur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira