Fótbolti

Bellingham fékk líka rautt en Rüdiger gæti fengið tólf leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Rüdiger er í slæmum málum og líklegast á leiðinni í langt bann.
Antonio Rüdiger er í slæmum málum og líklegast á leiðinni í langt bann. Getty/Maria Gracia Jimenez

Þrír leikmenn Real Madrid eru á leiðinni í leikbann eftir að hafa allir fengið rautt spjald í úrslitaleik spænska bikarsins i gær.

Real Madrid tapaði þar 3-2 á móti erkifjendunum í Barcelona í framlengdum leik en nánast allt liðið missti gjörsamlega stjórn á sér undir lok leiks.

Það sáu allir rauða spjaldið sem Antonio Rüdiger fékk fyrir að kasta einhverju í dómarann en nú hefur verið staðfest að þeir Jude Bellingham og Lucas Vázquez fengu líka rautt spjald fyrir mótmæli.

Alvarlegast er þó hegðun Rüdiger. Hann reyndi tvisvar að kasta ís í dómara leiksins og það þurfti marga menn úr starfsliði Real Madrid til að halda honum svo að hann réðist hreinlega ekki á dómarann.

Svo gæti farið að Rüdiger verði dæmdur í tólf leikja bann fyrir skammarlega hegðun sína í Sevilla í gærkvöldi.

Real Madrid hefur vælt yfir dómgæslu í allan vetur og menn þar á bæ telja hreinlega að öll spænska dómarastéttin sá á móti þeim. Svo mikið er ójafnvægið í hópnum að reynslubolti eins og Rüdiger hagar sér eins og smábarn.

Real Madrid er þegar búið að missa frá sér Meistaradeildina og spænska bikarinn og þeir eru síðan fjórum stigum á eftir Barcelona í baráttunni um spænska titilinn. Það gæti hins vegar verið enn erfiðara að vinna það upp með marga lykilmenn í banni á næstunni.

Rüdiger hefur beðist afsökunar á hegðun sinni en á samt örugglega von á löngu banni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×