Viðskipti innlent

Verð­bólga eykst hressi­lega og fer aftur yfir fjögur prósent

Árni Sæberg skrifar
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 20 prósent milli mánaða.
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 20 prósent milli mánaða. Vísir/Vilhelm

Tólf mánaða verðbólga jókst um 0,4 prósentustig milli mánaða og mælist nú aftur yfir fjórum prósentustigum, 4,2 prósent.

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í apríl 2025, sé 649,7 stig og hækki um 0,93 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis sé 522,0 stig og hækki um 0,93 prósent frá mars 2025.

Verð á mat og drykkjarvörum hafi hækkað um 0,8 prósent, áhrif á vísitöluna 0,12 prósent, og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, reiknuð húsaleiga, hafi hækkað um 1,1 prósent og haft 0,22 prósenta áhrif á vísitöluna. Flugfargjöld til útlanda hafi einnig hækkað um 20,4 prósent og haft 0,40 prósenta áhrif á vísitöluna.

Viðskiptabankarnir höfðu spáð því að verðbólga myndi aukast milli mánaða en aðeins um 0,2 prósentustig. Þeir bentu meðal annars á tímasetningu páskanna í ár sem ástæðu hækkunar fargjalda til útlanda og þar með aukingar verðbólgu.

Síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 4,2 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,2 prósent.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í apríl 2025, sem sé 649,7 stig, gildi til verðtryggingar í júní 2025.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×