Upp­gjörið: Njarð­vík - Haukar 72-90 | Haukar einu skrefi frá Íslandsmeistaratitlinum

Árni Jóhannsson skrifar
Haukar - Njarðvík Bónus Deild Kvenna Vor 2025
Haukar - Njarðvík Bónus Deild Kvenna Vor 2025 vísir/Diego

Haukar tóku Njarðvíkinga í kennslustundí seinni hálfleik þegar þær unnu sannfærandi 18 stiga sigur í öðrum leik úrslita Bónus deildar kvenna í Icemar höllinni í kvöld. Leikar enduðu 72-90 en Njarðvík var með forskot í hálfleik.

Haukar voru fljótari úr startblokkunum í kvöld og skoruðu fyrstu tvær körfur kvöldsins en það voru þriggja stiga körfur og staðan 0-6 á fyrstu mínútunni. Haukar hittu svo mjög illa úr þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik og Njarðvík náði að finna svör á varnarleik þeirra, hala Hauka inn og taka völdin á leiknum í fyrsta leikhluta. Staðan 22-19 eftir fyrstu tíu mínúturnar og Njarðvíkingar litu mjög vel út.

Í öðrum leikhluta stigu heimakonur fastar á bensíngjöfina og opnuðu mest 12 stiga forskto í stöðunni 25-19 og eftir það jafnaðist leikurinn út án þess að Haukar næðu að naga niður forskotið. Það hélst út þangað til að um fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá voru það Haukar sem stigu á sína bensíngjöf á meðan Njarðvík setti í hlutlausan. Tapaðir boltar, skotklukku bras og 7-0 sprettur gerði það að verkum að Haukar jöfnuðu metin, 34-34, en Njarðvík náði að bregðast við og fara með 41-38 forskot inn í hálfleikinn en tónninn hafði verið settur.

Haukar mættu brjálaðar út í seinni hálfleikinn. Gjörsamlega læstu öllum leiðum að körfunni sinni og allt varð verulega erfitt fyrir Njarðvík. Eftir því sem töpuðu boltunum fjölgaði hvarf loftið úr Njarðvíkingum og ráðaleysið varð algjört í sóknarleik heimakvenna. Það fór að Haukar unnu leikhlutann 7-19 og eftir á að hyggja kláraðist leikurinn þarna en staðan var 48-57 að honum loknum.

Í fjórða leikhluta mættu þriggja stiga skotin aftur hjá Haukum og það var ekki það sem læknirinn pantaði hjá Njarðvíkingum. Heimakonur héldu áfram að tapa boltunum og Haukar gengu enn lengra á lagið og gengu frá leiknum. Ráðaleysið var algjört í sóknarleik Njarðvíkinga var algjört og þegar það komu körfur gátu þær ekki stoppað og þegar stoppin komu þá komu körfurnar ekki. Haukar sigldu leiknum heim og bættu í undir lokin til að tryggja 72-90 sannfærandi sigur. Næsta vers er þá leikur á miðvikudaginn og Haukar fá tækifæri til að tryggja Íslandsmeistaratitilinn.

Atvik leiksins

Það má segja að þriðji leikhlutinn allur hafi verið atvik leiksins. Haukar héldu áfram góðu gengi frá lokum fyrri hálfleiksins og gjörsamlega gengu frá leiknum. Þær pressuðu Njarðvíkinga alveg upp að veggnum fræga og unnu leikhlutann 7-19.

Stjörnur og skúrkar

Það eru margar stjörnurnar í liði Hauka í kvöld og lögðu margar lóð á vogaskálarnar. Fjórir byrjunarliðsleikmenn fóru yfir 10 stig og 25 stig komu af bekknum frá þremur leikmönnum. Rósa Björk leiddi leiðina varnarlega og Lore Devos var stigahæst með 18 stig.

Brittany Dinkins náði sér ekki á strik, aftur, í kvöld og lauk leik með 15 stig en Paulina Hersler var stigahæst með 25 stig.

Umgjörð og stemmning

Umgjörðin í Njarðvík frábær og stemmningin var sömuleiðis frábær. Fullt hús og báða fylkingar létu vel í sér heyra allan tímann. 

Dómarar

Voru með fín tök á þessum leik. Haukar kvörtuðu oft sáran fyrir fjölda villa og kannski misræmi en þær spila hart og ekki skrýtið að þær voru með leikmenn í villuvandræaðum. Ekkert samt út á þá herramenn að setja.

Viðtöl:

Einar Árni: Ekki gott hjá okkur sóknarlega

„Það var fullt af hlutum hjá okkur sem fóru úrskeiðis“, var það fyrsta sem Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga benti á þegar hann var beðinn um útskýringu á sannfærandi sigri Hauka.

„Ég þarf samt fyrst að hrósa rulluspilurunum þeirra. Þær fengu stigin úr mörgum áttum í dag og gerðu mjög vel. Svo var þetta bara ekki gott sóknarlega hjá okkur í dag.“

Njarðvíkingar voru á góðu róli í fyrri hálfleik en Haukar komust á 11-2 sprett, jöfnuðu metin og gerðu viðureignina aftur spennandi eftir að það leit út fyrir að Njarðvík væri með góð tök á leiknum. Hvað gerðist þá hjá Njarðvík?

„Klaufalegir tapaðir boltar sem gefa lay-up fyrir það fyrsta. Þetta var þungt högg kannski. Tók stuttan tíma fyrir þær. Náðum að klára leikhlutann ágætlega og fara með þriggja stiga forskot en svo bara strögglum við sóknarlega í seinni hálfleik. Þar myndast hola sem var erfitt að komast upp úr.“

Einar var spurður að því afhverju engin leikhlé voru tekin í þriðja leikhluta sem endaði 7-19 fyrir Hauka.

„Ég hugsaði alveg út í það að gera það þegar 1:30 var eftir þá var það kannski orðið of seint.“

Njarðvíkingar gerðu breytingar til að komast í gegnum boltapressuna hjá Haukum og var spurður að því hvernig honum fannst það vera að virka.

„Þetta var betra í dag en í síðasta leik en 15 tapaðir boltar eru samt umfram það sem við horfðum til. Maður veit alveg að þegar þær eru fastar fyrir þá kemur það fyrir að við töpum boltum en við þurfum að skera þá niður um helming að mínu viti. Þetta var bara einn af mörgum þáttum sem við þurfum að skoða fyrir næsta leik.

Var sárt að nýta það ekki betur þegar þær eru komnar í villuvandræði?

„Já en við vorum samt ekki í þeirri stöðu að horfa í það að einhverjir leikmenn væru í villu vandræðum. Rósa, Agnes og Sólrún voru frábærar sóknarlega og Haukar gátu hvílt sína lykilmenn vegna þeirra. Við reyndum að sækja inn á teiginn en þær komu í veg fyrir það og við skjótum svo bara illa.“

Emil: Við erum eins og einhverjir farsímar frá Lune

Þjálfari Hauka, Emil Barja, gat sannarlega verið ánægður með leik sinna kvenna í kvöld. Hvað var það sem skilaði sigrinum í kvöld og sú staðreynd að Haukar eru komnar í 2-0 forystu og eygja möguleikann á að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á miðvikudaginn næsta?

„Ég verð að setja þetta á breiddina í liðinu. Við gátum verið á fullu allan tímann, þreytt þær og fengum síðan framlag frá bekknum líka. Agnes og Solla settu stóra þrista í lok leiksins.“

Hvað fannst Emil vera munurinn á hálfleikjunum hjá Haukum?

„Við vorum ekki að hitta vel í fyrri hálfleik en vorum að fá ágætis skot samt. Vorum kringum 20% í þriggja stiga nýtingu. Svo eyðum við massívri orku í vörnina og erum að þreyta þær mjög mikið. Njarðvík spilar mikið til á sömu leikmönnunum og þær verða því þreyttar í seinni hálfleik þannig að við vorum bara rólegar í hálfleik. Fórum inn í hálfleikinn á sprett og vildum halda áfram þeim ákafa sem við náðum upp í lok fyrri hálfleiks.“

Emil var beðinn um að leggja mat á ótrúlegan þriðja leikhluta sem endaði 7-19 fyrir Hauka.

„Þvílík orka sem kom í liðið. Við fórum að hitta og þær ekki og þá kom bara einhver stemmning með því.“

Haukar vildu tapa frákastabaráttunni með minna en 16 fráköstum eins og í síðasta leik en þær töpuðu baráttunni með einu í kvöld. Var Emil ánægður með það?

„Við töpuðum henni samt. Þannig að það er alltaf hægt að gera betur. Svo verð ég að hrósa henni Rósu Björk. Hún er að koma inn í byrjunarliðið fyrir Evu og hún er ekki stærsti leikmaðurinn á vellinu en hún er að rífa til sín fráköstin og stíga þessa risa út þarna hjá Njarðvík. Hún á mikinn heiður skilið fyrir þessa frammistöðu.“

Haukar voru með nokkra leikmenn í villuvandræðum og var t.d. Diamond Battles komin með fjórar villur þegar 12 mínútur voru eftir. Voru Haukar of grófar í kvöld?

„Við viljum brjóta. Við erum með marga leikmenn á bekknum sem voru að setja skotin sín í kvöld. Ég hafði ekki áhyggjur. Þær hefðu mátt fá fimm villur og hvíla sig fyrir næsta leik. Mér fannst allar sem komu inn á standa sig vel og ég er ótrúlega ánægður með liðið í heild.“

Njarðvíkingar settu upp svæðisvörn í fjórða leikhluta og fannst Emil hans lið ekki bregðast alveg nógu vel við því en hafði ekki áhyggjur.

„Við hittum svo vel í leikhlutanum. Við erum eins og einhverjir farsímar frá Lune. Það er allt ofan í hjá okkur. Það voru öll ljós kveikt bara og ég er ánægður með það.“

Hvernig er tilfinningin að að vera einum sigri frá fyrirheitna landinu og hvernig verður að brýna fyrir leikmönnunum að erfiðasta skrefið sé eftir?

„Það er erfiðasta skrefið eftir. Ég veit líka að Brittany á eftir að skora meira en í kvöld og veit að hún er ekki að fara að gefa okkur neitt í næsta leik. Við þurfum að halda upp ákafanum og vera aggressífar og loka öllu sem þær vilja gera. Þá held ég að við getum unnið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira