Atvinnulíf

Reyndist ekki rétt: „Reyk­víkingar munu aldrei koma“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Gestir Bæjarbíós í Hafnarfirði eru um 70-80 þúsund á ári, þar af Hafnfirðingar langflestir. Páll Eyjólfsson, framkvæmdastjóri bíósins býr vel að því að hafa verið í tónlistinni sjálfur lengi, stofnandi Papa og umboðsmaður ýmissa hljómsveita- og tónlistarmanna lengi. Bæjarbíóið var valið Fyrirtæki ársins 2025 í Hafnarfirði.
Gestir Bæjarbíós í Hafnarfirði eru um 70-80 þúsund á ári, þar af Hafnfirðingar langflestir. Páll Eyjólfsson, framkvæmdastjóri bíósins býr vel að því að hafa verið í tónlistinni sjálfur lengi, stofnandi Papa og umboðsmaður ýmissa hljómsveita- og tónlistarmanna lengi. Bæjarbíóið var valið Fyrirtæki ársins 2025 í Hafnarfirði. Vísir/Anton Brink

„Þetta eru í raun munnælasögur og einna helst að maður reyni að stökkva á eldra fólk þegar það labbar hér framhjá,“ segir Páll Eyjólfsson framkvæmdastjóri Bæjarbíós í Hafnarfirði.

Sem fagnar 80 ára starfsafmæli sínu í ár en virðist þó ekki eiga sína skrásettu sögu nema að mjög litlum hluta. Að minnsta kosti kemur lítið upp með einföldu gúggli.

„En Hafnfirðingar eru rosalega stoltir af húsinu og duglegir að koma. Sama hvað er í gangi eru Hafnfirðingar alltaf langflestir og næst á eftir þeim eru það kannski frekar gestir sem koma frá Suðurnesjunum eða jafnvel Árborgarsvæðinu. Ekki úr Reykjavík.“

Nú: Hvernig ætli standi á því?

„Jú það er vegna þess að við erum úti á landi og þessi hópur sem kemur utan af landi er að sækjast í þá stemningu,“ svarar Páll og bætir við:

Því þótt ég vilji svo sem ekki draga neitt úr öðrum bæjarfélögum í kringum Reykjavík verður það einfaldlega að segjast að Hafnarfjörður er eina bæjarfélagið sem er svona svolítið bær úti á landi.“

Á dögunum var Bæjarbíó í Hafnarfirði valið Fyrirtæki ársins 2025 hjá bænum. Fjögur önnur fyrirtæki voru tilnefnd: Nándin, Fjörukráin, Ísfell og Gulli Arnar Bakarí. Dalakofinn og Súfistinn hlutu heiðursverðlaun en útnefningin fór fram á veglegum viðburði sem Markaðsstofa Hafnarfjarðar stóð fyrir í lok mars.

„Árlega eru gestir sem til okkar koma um 70-80 þúsund talsins,“ segir Páll en bætir við að þetta sé líka níunda árið sem reksturinn er á vegum hans og Péturs Stephensen.

„Reykvíkingar munu aldrei koma“

Páll og Pétur buðu fyrst í rekstur Bæjarbíós árið 2013 en þá hafði Kvikmyndasafn Íslands verið starfrækt þar frá um aldamót. Páll og Pétur hnepptu ekki hnossið í það sinn því í þessu útboði fengu rekstrarleyfið hópur sem Páll segir í raun hafa rutt brautina og gert húsið að því sem það er í dag.

„Það eru alltaf einhverjir brautryðjendur og þau sem opnuðu hurðina að svona rekstri í húsinu var hópurinn sem var á undan okkur. Í þeim hópi voru til dæmis Ólafur Páll dagskrárgerðamaður, Erla Ragnarsdóttir í Dúkkulísunum, Kiddi Kanína og Hjörtur heitinn Howser,“ nefnir Páll sem dæmi.

Sjálfur þekkt nafn í bransanum; Stofnandi hljómsveitarinnar Papa árið 1986.

Þegar bærinn bauð út reksturinn aftur árið 2016, fengu Páll og Pétur þó leyfið og síðan þá hafa þeir unnið að því að byggja upp reksturinn sem miðstöð menningar og viðburða í bænum.

Maður heyrði samt alls kyns setningar í byrjun. Sem voru ekki sannar.

 Til dæmis setningar eins og: Reykvíkingar munu aldrei koma. 

En þá sagði ég líka alltaf: Það er allt í lagi. Því Hafnfirðingar telja um 30 þúsund íbúa og ef þið komið, mun þetta bjargast.“

Ábyrgðinni var þannig velt yfir á Hafnfirðinga og það góða er að sögn Páls, hafa Hafnfirðingar alltaf staðið undir þeirri ábyrgð.

„Hafnfirðingar eru almennt mjög meðvitaðir um að versla í heimabyggð. Og þeir eru meðvitaðir um hversu mikilvægt það er að halda úti svona menningu í miðbænum. Enda hefur verið reiknað út að afleiddar þjónustutekjur af starfseminni okkar eru um 400 milljónir króna á ári enda alþekkt að gestir sem koma til okkar eru til dæmis duglegir að fara út að borða og fleira á þessa fimm sex veitingastaði sem hér eru allt um kring og svo framvegis.“

Páll segir Hafnfirðinga líka meðvitaða um sparnaðinn sem felst í að sækja frekar staði í Hafnarfirði.

„Þú getur til dæmis keypt tvo miða á viðburð hjá okkur bara fyrir þann pening sem færi í leigubíl fram og til baka til Reykjavíkur.“

Páll og meðeigandi hans að rekstrarfélaginu Péturs Stephensen við hátíðlega athöfn þar sem Bæjarbíó fékk viðurkenninguna Fyrirtæki ársins 2025 í Hafnarfirði. Páll og Pétur hafa nú rekið Bæjarbíó í níu ár, en Páll segir þá alltaf hafa hugsað verkefnið þannig að það þyrfti að lágmarki tíu ár til að byggja upp svona menningarhús.

Gömul saga og pólitík

En kíkjum aðeins á söguna og það litla sem fannst við þessi greinaskrif. Því saga hússins er ekki aðeins merkileg heldur afar gömul og augljóslega vel tengd pólitíkinni í bænum fyrstu árin.

Því þegar bærinn ákvað að fara í rekstur Bæjarbíós, var þegar rekið bíó í bænum: Hafnarfjarðarbíó, stofnað árið 1914. Á þeim tíma voru tvö önnur kvikmyndahús starfrækt í landinu; Gamla bíó og Nýja bíó. Í daglegu tali gekk Hafnarfjarðarbíó undir heitinu Árnabíó, kennt við stofnandann Árna Þorsteinsson.

Þrátt fyrir þetta, ákvað bærinn að fara í samkeppni en með rekstri Bæjarbíós var ætlunin að nýta hagnaðinn til að fjármagna annað hús sem bærinn vildi byggja: Dvalarheimilið Sólvang.

„Þetta hefur eflaust verið viðkvæmt á sínum tíma þótt maður viti svo sem ekkert um það því þetta eru einna helst sögur sem maður heyrir af, frekar en að vita eitthvað. Það má líka velta fyrir sér hvernig stjórnsýslan hefur verið á þessum tíma; Ætli hún hafi ekki verið í þrengri og minni hópum þar sem fáir útvaldir tóku ákvarðanirnar,“ segir Páll, þó ekkert viss um söguna frekar en annar.

Margt við bygginguna er líka áhugavert. Því bíóið var innréttað á árunum 1942-43 af Sigmundi Halldórssyni húsameistara og Skarphéðni Jóhannssyni húsgagnaarkitekt. Í tíð Illuga Gunnarssonar sem menntamálaráðherra fyrir um áratug, var húsið friðað sem þýðir að Bæjarbíó er eina kvikmyndahúsið frá miðri 20.öld sem hefur varðveist í sinni upphaflegri mynd.

„Í dag tekur húsið þó aðeins 275 manns í sæti, en ekki 325 manns eins og upphaflega,“ segir Páll og skýrir út að þessi fækkun sæta var gerð í salnum áður en húsið var friðað og skýrist því af því.

Einstaka aðrar sögur fylgja líka húsinu. Sögur sem minna okkar á atburði gamalla tíma.

„Það er til dæmis hringur á húsinu sem upphaflega átti að vera fyrir klukku. Sú klukka er þó sögð hafa sokkið á leiðinni til landsins með Goðafossi og því var settur gluggi í staðinn,“ segir Páll og vísar þar til þess þegar Þjóðverjar sökktu Goðafossi í nóvember 1944 með þeim afleiðingum að 24 Íslendingar létu lífið.

Á rekstrartíma Páls og Péturs hefur staðurinn þó verið stækkaður. Opnað á milli í næsta hús, þar sem er starfræktur bar og fleiri salerni.

„Því það voru alltof fá salerni í húsinu miðað við þann fjölda sem hingað getur komið,“ útskýrir Páll.

Kannski að gestir hússins hafi einfaldlega verið í spreng í áraraðir?

Páll segir það helst munnmælasögur sem segi 80 ára sögu Bæjarbíós. Sem upphaflega var byggt til að fjármagna dvalarheimilið Sólvang. Á húsinu er hringur sem upphaflega var ætlaður klukku. Sú klukka sökk með Goðafossi árið 1945 og því var settur gluggi í staðinn.Vísir/Anton Brink

Tónlistarfólk og fastagestir

Kvikmyndasýningum var hætt í húsinu árið 1970 en þá fékk Leikfélag Hafnarfjarðar aðstöðu þar. Árið 1997 tók Kvikmyndasafn Íslands við bíóinu og frá árinu 2001 stóð safnið fyrir reglulegum kvikmyndasýningum þar sem bíómyndirnar voru sýndar með upphaflegu kvikmyndasýningarvélunum.

Ástæðan fyrir því að Páll fékk áhuga á húsinu fyrir rúmum áratug síðan, var vegna þess að árið 2004 flutti hann með umboðsskrifstofuna sína í húsnæði staðsett á móti Bæjarbíó. Því já; Páll er flestu tónlistarfólki vel kunnugur; fór snemma að starfa sem umboðsmaður fyrir aðrar hljómsveitir og tónlistarmenn þegar Paparnir voru upp á sitt besta.

„Því þá náðum við ekki að anna eftirspurninni eftir okkur og ég hugsaði bara með mér: Hvers vegna ekki að nýta þessar mögulegu bókanir fyrir aðra?“ segir Páll um það hvernig umboðsmannaferillinn hófst á sínum tíma.

„Út frá skrifstofunni minni horfði ég á Bæjarbíó og var fljótur að átta mig á því að nýtingin á húsinu væri ekki mikil,“ segir Páll og úr varð að hann nefndi þessa hugmynd við félaga sinn Pétur um hvort þeir ættu ekki að taka þátt í útboðinu og byggja staðinn upp fyrir tónleikahald og fleira.

Það á ætla að gestir Bæjarbíós í fullu húsi hafi verið í spreng í áratugi, því Páll segir skýringuna á því hvers vegna staðurinn var stækkaður með bar inn af næsta húsi vera sú að það vantaði áþreifanlega fleiri salerni niðað við fjölda gesta í húsið.Vísir/Anton Brink

Sjálfur er Páll þó ekki Hafnfirðingur, heldur aðfluttur andskoti eins og margir eru kallaðir í Hafnarfirði. Og þó…. því Páll kemur frá Vestmanneyjum og þekkir því vel þetta bæjarlíf sem fólk út á landi sækist í að lifa og hrærast í.

Pétur er hins vegar borinn og barnfæddur Hafnfirðingur, mörgum kunnugur í gegnum störf sín fyrir FH og fleira.

En hvernig ætli gangi að reka menningarhús? Er þetta ekki bara dauðinn og djöfullinn oft á tíðum eins og sagt er með menningarrekstur yfir höfuð?

„Nei,“ svarar Páll og staðfestir að það hafi til dæmis aldrei komið upp hjá þeim félögum á þessum níu árum að gefast upp með reksturinn.

„Sem skýrist líka af því að við sáum alltaf fyrir okkur að það myndi taka að minnsta kosti tíu ár að byggja svona rekstur upp.“

Langtímahugsun sem sjaldnast er þekkt í íslensku atvinnulífi.

„Við erum líka í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld, það skiptir miklu máli en fyrst og fremst eru þetta líka Hafnfirðingarnir sjálfir sem hafa tryggt að þessi rekstur gengur. Hingað koma til dæmis margir fastagestir, sumir fastagestirnir koma meira að segja tvisvar í mánuði eða svo.“

Páll segist búa vel að þeirri reynslu að hafa unnið í áraraðir með tónlistarfólki.

„Við breyttum ekki miklu í húsinu þegar við tókum við, enda húsið friðað. En settum þó upp hljóðkerfi með bænum og fleira til þess að gera það aðlaðandi fyrir listamenn.“

Bæjarbíó er friðað hús og því eina kvikmyndahús landsins sem hefur varðveist í sinni upphaflegu mynd. Í dag er fjölbreytt flóra tónlistarviðburða í húsinu en Páll segir reynsluna af því að vera sjálfur í hljómsveitinni Pöpum og umboðsmaður tónlistarfólks um árabil, nýtast vel við rekstur hússins.Vísir/Anton Brink

Tónlistarveislan framundan

Stærsti viðburðurinn sem Bæjarbíó stendur fyrir er sumarhátíð.

„Svona rekstur er auðvitað kvikur markaður. Þannig að við höfum gert ýmislegt til að styrkja reksturinn þannig að hann gangi upp á ársgrundvelli. Hjarta Hafnarfjarðar er bæjartónlistarhátíð sem við héldum fyrst sumarið 2017. Þá komu 500 manns. Í fyrra komu 40 þúsund manns,“ segir Páll stoltur en þegar þessi hátíð er haldin, er tveimur stórum tjöldum slegið upp fyrir utan og boðið upp á alls kyns viðburði og veitingar sem eru frítt fyrir gesti í þrjá daga.

„Þetta er eins og Þjóðhátíð Vestmanneyinga í Hafnarfirði,“ bætir hann við og brosir.

Bæjarbíó stendur líka fyrir hátíðinni Jólahjarta Hafnarfjarðar. Þá er tjaldi líka slegið upp fyrir utan og gestum og gangandi boðið upp á heitt kakó og fleira og í Jólahjartanu stendur Sóli Hólm líka fyrir uppistandssýningunni Jóla Hólm.

Á vefsíðu Bæjarbíós segir að staðurinn sé ævintýralegt tónlistar- og viðburðarhús. Og augljóst að nóg um að vera framundan: Í maí eru tónleikar með tónlist Tinu Turner og stuttu síðar tónlistarviðburðurinn Classic Rock ´70 &´80, Nýdönsk, VÖK, Biggi Maus og Fríða Dís og The Vintage Caravan halda síðan tónleika áður en Hjarta Hafnarfjarðar hitar upp með rokktónleikunum Hittumst í Himnaríki.

Sjálfur kóngurinn, Björgvin Halldórsson, opnar síðan hátíðina Hjarta Hafnarfjarðar og í kjölfarið ríður Bríet á vaðið og fleiri kunnug nöfn.

Á vefsíðu fyrirtækisins má sjá auglýsta viðburði fram í október á þessu ári og augljóst að það er margt framundan á þessu stórafmælisári Bæjarbíós.

„Þetta er reyndar ekki húsið okkar Péturs. Hafnfirðingar eiga húsið og við finnum alveg fyrir því að hér er fólk stolt af því að eiga þetta hús. Mér finnst við upplifa einlægt þakklæti frá bæjarbúum að svona menningarhús sé rekið í þeirra heimabæ. Og auðvitað er alltaf rosalega gaman að fá svona viðurkenningar eins og Fyrirtæki ársins. Við erum ákaflega stoltir af því enda ekkert lítið verðug fyrirtæki sem þarna var verið að tilnefna líka,“ segir Páll og klikkir síðan út með:

„Enda svo mörg frábær fyrirtæki í Hafnarfirði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×