Enski boltinn

Stað­festir brott­för frá Liverpool

Aron Guðmundsson skrifar
Trent í leik með Liverpool
Trent í leik með Liverpool Vísir/Getty

Trent Alexander-Arnold mun yfirgefa herbúðir enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool að yfirstandandi tímabili loknu.  

Frá þessu er greint í yfirlýsingu Liverpool núna í morgun en samningur Trent við félagið er að renna út og búist er við því að hann gangi í raðir spænska stórveldisins Real Madrid á frjálsri sölu.

Þessi 26 ára gamli leikmaður kveður Liverpool því með Englandsmeistaratitli en í yfirlýsingu Liverpool segir hann ekki um auðvelda ákvörðun að ræða að segja skilið við félagið. Raunar sé ákvörðunin sú erfiðasta sem hann hafi þurft að taka til þessa.

„Þetta er ekki auðveld ákvörðun að taka. Ég hef hugsað mikið um þetta og fyrir mig eru miklar tilfinningar bundnar í þessa ákvörðun. Ég hef verið hjá Liverpool í tuttugu ár og notið hverrar einustu mínútu, upplifað alla mína drauma, afrekað allt sem ég vildi hér,“ segir Trent í hjartnæmri kveðju til stuðningsmanna Liverpool.

Nú þurfi hann nýja áskorun á sínum ferli.

„Ég er búinn að gefa allt mitt á hverjum einasta degi í þessi tuttugu ár. Nú er ég á þeim tímapunkti að þurfa nýja áskorun, bæði fyrir mig sem leikmann en einnig einstakling.“

Félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greindi frá því á samfélagsmiðlinum X í morgun að Trent sé á leiðinni til Real Madrid og að þar muni hann skrifa undir fimm ára samning.

Alexander-Arnold hefur allan sinn feril spilað fyrir Liverpool eftir að hafa gengið í akademíu félagsins sex ára gamall og nú hefur hann leikið lykilhlutverk í uppgangi liðsins undir stjórn Jurgen Klopp og nú Arne Slot.

Hjá Liverpool hefur hann í tvígang orðið Englandsmeistari, unnið Meistaradeild Evrópu einu sinni sem og heimsmeistarakeppni félagsliða. Hefur hann einnig orðið enskur bikarmeistari með félaginu og í tvígang unnið enska deildarbikarinn. Þá var hann í liði Liverpool sem vann samfélagsskjöldinn tímabilið 2022/23.

Alls hefur Trent Alexander-Arnold spilað 351 leik fyrir aðallið Liverpool, skorað 23 mörk og gefið 92 stoðsendingar.

Á þessum tímamótum er Alexander Arnold þakklátur stuðningsmönnum Liverpool.

„Þið hafið staðið með mér alla leið frá byrjun. Ég hef fundið fyrir stuðningnum, ástinni, allt það sem að þið hafið lagt á ykkur hefur ekki farið fram hjá mér. Ég vona að þeir hafi fundið það frá mér að ég var til í að gefa allt fyrir þetta félag.“

Hann vill ekki að fréttir um brotthvarf sitt skyggi á fögnuð þessa tímabils þar sem að Liverpool stóð uppi sem Englandsmeistari. 

„Þetta hefur verið frábært tímabil. Það hefur verið stórkostlegt að vera hluti af þessu liði og ég vona að þið munið ekki dvelja á þessum fréttum of lengi og að við munum geta fagnað vel og innilega með strákunum.“

Fréttin verður uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×