Enski boltinn

„Gengur aldrei einn í Liverpool en kannski gerir þú það i Madrid“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold fagnar hér Englandsmeistaratitli Liverpool ásamt hörðustu stuðningsmönnunum í Kop stúkunni.
Trent Alexander-Arnold fagnar hér Englandsmeistaratitli Liverpool ásamt hörðustu stuðningsmönnunum í Kop stúkunni. Getty/Carl Recine

Trent Alexander-Arnold gaf það út formlega út í dag að hann er á förum frá Liverpool. Það er ljóst að þetta eru sárar og súrar fréttir fyrir mjög marga stuðningsmenn Liverpool.

Alexander-Arnold hefur verið hjá Liverpool frá því að hann var smástrákur og hefur unnið sig upp hjá félaginu. Nú er félagið ekki nógu gott fyrir hann lengur því enski landsliðsbakvörðurinn vill komast til Real Madrid á Spáni.

Það er ekki bara það að Liverpool sé að missa Trent fyrir hans bestu ár sem knattspyrnumanns þá er hann einnig að fara frítt. Leikmaður sem Liverpool hefur alið upp og hlúð að en fær nú ekki krónu fyrir.

Leiður stuðningsmaður Liverpool, eins og hann kallar sig, tók saman tilfinningar sínar með stuttum skilaboðum til Trents sem breska ríkisútvarpið birti á miðlum sínum.

„Kæri Trent. Þú hefur verið stórkostlegur leikmaður fyrir Liverpool og lykilmaður í því að vinna marga titla fyrir okkur. Ég vona samt að þú sért ekki bara á förum til þess að komast í fræga hvíta búninginn eða til að vinna Gullhnöttinn,“ skrifaði „A sad Reds fan“ eins og hann kallaði sig.

„Ég vona að þú áttir þig á því að þú ert að yfirgefa stöðugt félag, stuðningsmannahóp sem elskar þig og lið sem er byggt í kringum þinn leik. Þú ert líka að gefa frá þér goðsagnastöðu hjá félaginu. Þú gengur aldrei einn í Liverpool en kannski gerir þú það i Madrid. Gangi þér vel,“ lauk sá leiði pistli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×