Fótbolti

„Settum meiri pressu á þá þegar líða tók á leikinn“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Rúnar Kristinsson þungt hugsi á hliðarlínunni í dag.
Rúnar Kristinsson þungt hugsi á hliðarlínunni í dag. vísir/Diego

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, gat týnt til ýmislegt jákvætt við spilamennsku lærisveinna sinna þrátt fyrir tap á móti Víkingi þegar liðin áttust við í Bestu-deild karla í fótbolta í Fossvoginum í kvöld. 

„Við vorum frekar ragir fyrstu 20 mínúturnar sirka og gáfum þeim full mikinn frið með boltann. Þeir skora eftir föst leikatriði þar sem þeir eru sterkir og svo vel útfærða sókn þar sem við hefðum getað varist betur. Eftir það settum við meiri pressu á þá og komum okkur inn í leikinn með markinu hjá Vuk,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram.

„Mér fannst við koma inn af krafti inn í seinni hálfleikinn og hefðum hæglega geatað jafnað áður en Gylfi Þór skoraði. Það er jákvætt að við höfum ekki kastað inn hvíta handklæðinu eftir að hafa lent 3-1 undir og við settum þrýsting á þá undir lokin,“ sagði Rúnar þar að auki.

„Eftir að Róbert skoraði fengum við nokkur færi og það munaði ekki miklu að við fengjum stig á erfiðum útivelli. Það virðist stundum vera að við þurfum að lenda undir til þess að verða hugaðir í pressu og halda betur í boltann. Það þarf að breyta því í framhaldinu,“ sagði hann.

„Við viljum geta mixað leiknum meira án þess að taka mið af því hvað staðan er í leikjunum. Setja lið undir pressu þó svo að staðan sé enn jöfn. Það er erfitt að spila pressubolta allan tímann en ég myndi vilja geta sýnt ákefð í varnarleiknum og sköpunarkraft í sóknarleiknum í lengri tíma og fyrr í leikjum,“ sagði þjálfari Frammara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×