Enski boltinn

Arteta skaut á Liverpool á fundi fyrir PSG leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, heilsar Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, fyrir fyrri leik liðanna á þessu tímabili.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, heilsar Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, fyrir fyrri leik liðanna á þessu tímabili. Getty/David Price

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, talaði um Liverpool á blaðamannafundi sínum fyrir seinni undanúrslitaleikinn í Meistaradeildinni á móti Paris Saint Germain.

Arsenal er 1-0 undir eftir tap á heimavelli í fyrri leiknum en þetta er eini möguleiki liðsins á því að vinna titil á þessu tímabili.

Liverpool tryggði sér enska meistaratitilinn á dögunum en þá voru enn fjórar umferðir eftir af deildarkeppninni.

Arsenal er fimmtán stigum á eftir Liverpool þegar þrjár umferðir eru eftir. Arteta virtist skjóta á Liverpool á blaðamannafundi fyrir PSG leikinn.

„Þú verður að vera á réttum stað á réttum tíma til þess að vinna titla. Liverpool hefur núna unnið titilinn með færri stig en við höfum náð í undanfarin tvö tímabil. Ef staðan hefði verið sú sama þá værum við með tvo meistaratitla á síðustu tveimur árum,“ sagði Mikel Arteta.

Liverpool er með 82 stig en liðið tapaði síðasta leik sem var á móti Chelsea. Arsenal var með 89 stig og 84 stig í öðru sætinu á eftir Manchester City undanfarin tvö tímabil.

Liverpool á enn möguleika á því að ná 91 stigi og kannski talaði Arteta of snemma. Einn af þeim þremur leikjum sem eru eftir er leikur Liverpool og Arsenal á Anfield á sunnudaginn kemur. Sá leikur verður enn áhugaverðari eftir ummæli eins og þessi.

„Vonandi verðum við á réttum tíma á réttum stað í París og vinnum okkur réttinn að spila í úrslitaleiknum,“ sagði Arteta.

Leikur Paris Saint Germain og Arsenal er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Upphitun hefst klukkan 18.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×