Enski boltinn

Rio Ferdinand lagður inn á sjúkra­hús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ferdinand gat ekki mætt i vinnuna hjá TNT Sports vegna veikinda.
Rio Ferdinand gat ekki mætt i vinnuna hjá TNT Sports vegna veikinda. Getty/Malcolm Couzen

Þeir sem fylgjast með umfjöllun TNT Sports um Meistaradeildina tóku eftir því að það vantaði Rio Ferdinand i umfjöllun stöðvarinnar um seinni undanúrslitaleikina í Meistaradeildinni.

Internazionale og Paris Saint Germain tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum í München.

Ferdinand hefur frá árinu 2015 verið einn aðalmaðurinn í umfjöllun TNT, og áður BT Sports, um ensku úrvalsdeildina, Meistaradeildina, enska bikarinn og Evrópudeildina.

Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, var hins vegar hvergi sjáanlegur í þættinum í gærkvöldi eða í fyrrakvöld. Rio hefur nú útskýrt hvað var í gangi hjá sér.

Ferdinand birti nefnilega mynd af sér á samfélasmiðlum þar sem hann sést liggja í rúmi á sjúkrahúsi.

Það er þó ekki alveg á hreinu hvað var að angra kappann en það var nógu alvarlegt til þess að hann var lagður inn á sjúkrahús.

„Niðurbrotinn yfir því að ég skuli missa af undanúrslitaleikjunum í þessari viku. Óska teyminu alls hins besta. Ég mun fylgjast með allan tímann á Ipadinum mínum,“ skrifaði Rio Ferdinand á Instagram.

Ferdinand var með næringu í æð á myndinni.

Hann er 46 ára gamall en setti fótboltaskóna upp á hillu árið 2015. Hann spilaði 81 landsleik fyrir England og varð sex sinnum Englandsmeistari með Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×