Fótbolti

Svein­dís kvödd á sunnu­daginn

Sindri Sverrisson skrifar
Tímabilið með Wolfsburg í vetur hefur verið vonbrigði fyrir Sveindísi en hún náði þó því magnaða afreki að skora fernu í Meistaradeild Evrópu, gegn Roma í desember, sem varamaður.
Tímabilið með Wolfsburg í vetur hefur verið vonbrigði fyrir Sveindísi en hún náði þó því magnaða afreki að skora fernu í Meistaradeild Evrópu, gegn Roma í desember, sem varamaður. getty/Inaki Esnaola

Þýska knattspyrnufélagið Wolfsburg hefur nú formlega tilkynnt að Sveindís Jane Jónsdóttir yfirgefi félagið í sumar, þegar samningur hennar rennur út.

Wolfsburg tilkynnti í dag að Sveindís og níu aðrir leikmenn yrðu kvaddir á sunnudaginn, þegar liðið spilar á heimavelli við Leverkusen í síðasta leik sínum á tímabilinu.

Auk Sveindísar munu þær Anneke Borbe, Jule Brand, Kristin Demann, Merle Frohms, Marina Hegering, Kathy Hendrich, Lisa Schmitz, Tabea Sellner og Lynn Wilms hverfa á braut.

Brotthvarf Sveindísar hefur lengi legið í loftinu. Hún kom til félagsins frá Keflavík um áramótin 2020-21 en var lánuð í eitt ár til Kristianstad í Svíþjóð. Hún hefur síðan spilað fjórar leiktíðir með Wolfsburg en mun oftar sem varamaður en í byrjunarliði.

Á leiktíðinni sem nú er að ljúka hefur Sveindís aðeins byrjað fjóra deildarleiki en komið inn á í fjórtán. Þjálfaraskipti virtust þar litlu breyta en hún hefur einu sinni verið í byrjunarliði eftir að þjálfarinn Tommy Stroot sagði starfi sínu lausu 1. apríl.

Sveindís, sem er 23 ára gömul, hefur lítið tjáð sig um framtíð sína en þó nefnt í samtali við Fótbolti.net að hún sé spennt fyrir ensku úrvalsdeildinni. Kærasti Sveindísar, Rob Holding, er á mála hjá enska félaginu Crystal Palace en hefur verið að láni hjá Sheffield United í vetur og er kominn í umspil með liðinu um sæti í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×