Enski boltinn

Vonast til að Man United sé til­búið að selja sig á tæp­lega sjö milljarða króna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hvar spilar Rashford á næstu leiktíð?
Hvar spilar Rashford á næstu leiktíð? Carl Recine/Getty Images

Enski framherjinn Marcus Rashford vonast til að Manchester United muni samþykkja öll tilboð upp á 40 milljónir pund eða rétt tæplega sjö milljarða íslenskra króna, í sumar. Sjálfur er Rashford sagður vilja ganga í raðir Barcelona.

Rashford og Rúben Amorim, núverandi þjálfari Manchester United, náðu ekki vel saman og var enski framherjinn á endanum lánaður til Aston Villa sem getur fest kaup á leikmanninum fyrir 40 milljónir punda.

Klásúla Villa við Man United kemur ekki í veg fyrir að önnur lið kaupi leikmanninn og vonast Rashford til að 40 milljónir punda séu nóg, sama hvað liðið heitir. Sem stendur er leikmaðurinn meiddur og þó hann hafi notið sín hjá Villa þá er óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér.

Heimildir breska ríkisútvarpsins greina frá því að talið sé líklegast að Rashford hefji undirbúningstímabilið fyrir næstu leiktíð með Man United en það eru þó litlar líkur á að Amorim sé að fara skipta um skoðun er kemur að leikmanninum.

Rashford sjálfur er sagður vilja fara til Barcelona en sama hver niðurstaðan verður er næsta öruggt að hann þurfi að taka á sig launalækkun. Hann er einn af launahærri leikmönnum Man United. 

Á meðan lánssamningi hans við Villa stóð borgaði Villa 75 til 90 prósent af launum hans, hvort liðið sé tilbúið að borga jafnhá laun eftir að eyða 40 milljónum punda til að kaupa hann af Rauðu djöflunum verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×