Enski boltinn

Draumaendir hjá Vardy í kveðjuleiknum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jamie Vardy batt enda á feril sinn hjá Leicester með meira en ásættanlega tölfræði, tvö hundruð mörk í fimm hundruð leikjum.
Jamie Vardy batt enda á feril sinn hjá Leicester með meira en ásættanlega tölfræði, tvö hundruð mörk í fimm hundruð leikjum. Gareth Copley/Getty Images

Jamie Vardy átti draumaendi á ferli sínum með Leicester City þegar hann skoraði 200. mark sitt fyrir félagið í 500. leiknum. Leicester fór með 2-0 sigur af hólmi gegn Ipswich.

Vardy skoraði opnunarmarkið eftir tæplega hálftíma leik og gjörsamlega tryllti lýðinn á leikvanginum. Þegar liðið féll úr úrvalsdeildinni fyrir um mánuði síðan tilkynnti Vardy að hann yrði ekki áfram á næsta tímabili. Skórnir eru samt ekki á leið upp á hillu.

Ákveðið var svo að Vardy myndi spila sinn síðasta leik í dag, á heimavelli, 500. leikinn fyrir félagið í öllum keppnum.

Kasey McAteer tvöfaldaði forystu Leicester um miðjan seinni hálfleik. Bæði Leicester og Ipswich eru á leið niður um deild og höfðu ekki að neinu að spila í dag.

Forest og Fulham sóttu sigra

Nottingham Forest sótti 1-2 sigur gegn West Ham fyrr í dag. Morgan Gibbs-White og Nikola Milenkovic skoruðu mörk gestanna. Jarred Bowen minnkaði muninn fyrir heimamenn með marki á 86. mínútu.

Sigurinn færir Forest upp í sjöunda sætið, með 65 stig, og heldur Meistaradeildarvonum liðsins á lífi.

Brentford tók svo á móti Fulham og þurfti að sætta sig við 2-3 tap, eftir að komist 1-2 yfir rétt fyrir hálfleik.

Bryan Mbuemo og Yoane Wissa skoruðu mörk Brentford. Raul Jimenez, Tom Cairney og Harry Wilson sáu um að tryggja Fulham sigur.

Brentford er í áttunda sæti deildarinnar en á ekki möguleika á að komast ofar, tíu stigum frá Forest fyrir lokaumferðina. Fulham er stigi neðar í tíunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×