Erlent

Ó­vissa uppi um „stóra og fal­lega“ frum­varpið og Musk hótar hefndum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Musk gaf 300 milljónir dollara í kosningasjóði Repúblikana í fyrra. Nú kann svo að fara að auðjöfurinn muni beita fjármunum sínum gegn flokknum í næstu kosningum.
Musk gaf 300 milljónir dollara í kosningasjóði Repúblikana í fyrra. Nú kann svo að fara að auðjöfurinn muni beita fjármunum sínum gegn flokknum í næstu kosningum. Getty

Umræður og atkvæðagreiðslur vegna „stóra og fallega“ frumvarps Donald Trump Bandaríkjaforseta um ráðstafanir í ríkisfjármálum hafa staðið yfir í öldungadeild bandaríska þingsins í næstum 20 klukkustundir.

Trump hefur gert þinginu að samþykkja frumvarpið fyrir 4. júlí, þegar Bandaríkin fagna sjálfstæði sínu, en óvissa er uppi um hvort nægur fjöldi þingmanna Repúblikanaflokksins muni styðja það yfir höfuð.

Atkvæðagreiðslur hafa staðið yfir vegna fjölda viðaukatillaga sem lagðar hafa verið fram í tengslum við málið. Áhyggjur eru þegar uppi um að frumvarpið hafi breyst svo mikið í meðförum öldungadeildarinnar að það muni ekki ná í gegn þegar það fer aftur til neðri deildarinnar.

Fulltrúadeildin samþykkti sína eigin útgáfu af frumvarpinu með aðeins eins atkvæðis meirihluta. Tveir öldungadeildaþingmenn Repúblikanaflokksins, Thom Tillis og Rand Paul, hafa þegar tilkynnt að þeir muni ekki greiða atkvæði með frumvarpinu og aðeins tvo til viðbótar þarf til að koma í veg fyrir samþykkt þess.

Nokkrir þingmenn hafa lýst því yfir að frumvarpið gangi ekki nógu langt í því að skera niður stuðning ríkisins við ýmis úrræði á borð við Medicaid og þá vill þingmaðurinn Susan Collins frá Maine að auknar álögur verði settar á efnuðustu einstaklinga landsins.

Elon Musk, efnaðasti maður heims, hefur einnig blandað sér í umræðuna á ný eftir nokkuð hlé og heitir því nú að stofna nýjan stjórnmálaflokk ef frumvarpið verður samþykkt. Hann hefur verið harðlega gagnrýnin á hið „stóra og fallega“ frumvarp, þar sem það mun auka skuldir ríkisins þrátt fyrir niðurskurð á ýmsum sviðum.

Musk sagðist einnig í gær myndu beita öllu sínu valdi til að tryggja að þeir þingmenn Repúblikanaflokksins sem samþykktu frumvarpið myndu tapa sætunum sínum í næstu kosningum. 

Ef Musk stendur við stóru orðin má segja að eitt stærsta vopn Repúblikanaflokksins í kosningunum í fyrra verði notað gegn flokknum á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×